Fjölmiðlar ytra greina frá því að leikarinn hefði fallið frá í gær en dánarorsök eru ekki kunn.
Parks fæddist í Corono í Kaliforníu-fylki Bandaríkjanna þann 24. apríl árið 1940. Á lífsleiðinni vann hann ýmis störf, þar á meðal við að tína ávexti, skurðgröft, akstur vöruflutningabifreiða og í slökkviliði.
Leiklistarferillinn spannaði sex áratugi. Hann hóf ferilinn með litlu hlutverki í gamanþáttunum The Real McCoys og lék í kvikmyndinni The Bible sem kom út árið 1966.
Hann öðlaðist þó fyrst frægð fyrir að leika aðalhlutverkið í þáttunum Then Came Bronson.
Aðeins var framleidd ein sería en þar lék Parks einfara sem ákvað að segja skilið við hið daglega amstur í kjölfar sjálfsvígs besta vinar síns og ferðast um Bandaríkin á Harley Davidson-mótorhjóli.
Hann söng einnig titillag þáttanna, Long Lonesome Highway, sem rataði á vinsældarlista í Bandaríkjunum.
Hann fékk nokkur hlutverk árin eftir en þó engin aðalhlutverk. Ferillinn fór á flug á ný þegar hann lék í þáttunum Twin Peaks eftir David Lynch. Þar fór hann með hlutverk illmennisins Jean Renault.
Hann lék því næst í From Dusk til Dawn, Kill Bill-myndunum og Django Unchained, Red State og The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford, svo dæmi séu tekin.