Tónlistarmaðurinn Erpur Eyvindarson hefur hreiðrað um sig í einbýlishúsi við Sæbólsbraut í Kópavogi. Fasteignamat hússins er um 70 milljónir, en fasteignasali segir virðið um 100 milljónir. Erpur hefur lengi verið í fasteignahugleiðingum.
Nágrannar Erps eru Telma Halldórsdóttir, sem var stjórnarmaður í Q Iceland Finance, félagi emírsins sem keypti fimm prósenta hlut í Kaupþingi árið 2008. Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs og Björg Rafnar læknir. Húsið stendur á um 900 fermetra sjávarlóð og var reist 1982.
Húsið er um 225 fermetrar, timburhús, hæð og ris á steyptum kjallara. Tvær einstaklingsíbúðir eru í kjallaranum og sex herbergja íbúð, sem nær yfir hæð og ris.
Eldhúsið er stórt með fallegri innréttingu. Baðherbergið flísalagt með hornbaðkari.
Timburstigi er úr anddyri upp á loft þar sem er stórt rými með útgangi út á svalir til vesturs með fallegu útsýni. Húsið er með stórum garði og verönd liggur hringinn í kringum húsið.
Erpur er einn þekktasti íbúi Kópavogs og hefur látið í sér heyra þegar honum mislíkar bæjarpólitíkin. Tenging hans við bæinn er mikil. Enda gott að búa í Kópavogi eins og frægt er.
Erpur í 100 milljóna króna einbýlishúsi
Benedikt Bóas skrifar
