May greindi frá þessu á blaðamannafundi í Downing stræti í morgun.
May fór þar yfir nýjustu fréttir af árásinni, sagði að auk hinna þriggja árásarmanna væru sjö látnir og 48 á sjúkrahúsi. Margir væru lífshættulega særðir. Forsætisráðherrann sagði árásarmennina hafa klæðst fölsuðum sprengjuvestum í þeim eina tilgangi að skapa ótta og ringulreið.
May sagði lögregluyfirvöld hafa komið í veg fyrir fimm trúverðugar hryðjuverkaárásir í landinu frá árásinni á Westminster-brúnni í mars. Sagði hún samfélagið standa frammi fyrir nýrri tegund árása þar sem árásarmenn væru að herma eftir hver öðrum.
Forsætisráðherrann sagði ljóst að ekki væri hægt að halda áfram án þess að bregðast við. Hún sakaði stóru netfyrirtækin um að skapa „örugg svæði “ fyrir öfgamenn á netinu og hvatti til að alþjóðasamfélagið myndi þrýsta á fyrirtækin að grípa til aðgerða.
May sagði umburðarlyndi í garð öfgastefnu væri of mikið í Bretlandi og að grípa þyrfti til mikilla aðgerða til að snúa þessu við. Þetta myndi krefjast samræðna sem gætu reynst erfiðar og óþægilegar.
Loks sagði hún að þingkosningarnar myndu fara fram á fimmtudag og að kosningabaráttu yrði fram haldið á morgun.
UK general election to go ahead on Thursday, PM May confirms, as she appeals for public to live lives as normal https://t.co/ol9pshKebo pic.twitter.com/0IPIXJx2rU
— BBC Breaking News (@BBCBreaking) June 4, 2017