Að minnsta kosti fjögur hundruð meðlimir Rohingja-ættbálksins í Mjanmar hafa verið drepnir í vikunni en ofbeldið í Rakhine-héraði í landinu fer nú stigvaxandi.
Á þriðja tug líka skolaði á land á árbakka í Bangladess í gær og var þar aðallega um konur og börn að ræða.
Óttast er að stjórnarherinn í Mjanmar hafi hert á sókn sinni gegn Rohingjum undanfarna daga en herinn hefur verið sakaður um gróf mannréttindabrot gegn fólkinu, sem er múslimatrúar.
Sóknin hófst í kjölfar þess að aðskilnaðarsinnar Rohingja gerðu árás á varðflokk stjórnarhersins á dögunum.
