„Við munum þurfa að skoða breytingar á réttindakerfinu á næsta ári en þannig tæklar þú skuldir og fjárlagahalla,“ sagði Ryan í útvarpsviðtali í gær. Skömmu síðar sagði hann að heilbrigðiskerfið keyrði skuldir ríkisins áfram.
Hann sagðist einnig hafa rætt málið við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og ýtt undir nauðsyn þess að draga úr opinberri fjárveitingu til svokallaðs Medicare. Það snýr að sjúkratryggingum fyrir aldraða. Ryan sagði einnig að þingið myndi reyna að draga úr kostnaði við almannatryggingar.
Sem forsetaframbjóðandi hét Trump því að draga ekki úr kostnaði Medicare og almannatrygginga.
Gagnrýni á skattafrumvarp Repúblikana hefur að mestu snúið að því að ríkir Bandaríkjamenn fái verulega afslætti á sköttum en fátækir og miðstétt landsins sitji eftir og þurfi að greiða hærri skatta innan nokkurra ára.
Atvinnuleysisbætur fátækragildra
Þingmenn flokksins hafa að undanförnu farið víða um og rætt nauðsyn þess að draga úr kostnaði ríkisins. Margar tillögur þeirra hafa snúið að nauðsyn þess að draga úr fjárhagslegum stuðningi við fátækt fólk.
Til dæmis sagði þingmaðurinn Orrin G. Hatch að aðgerðir Demókrata til stuðnings fátækra væri sóun á fjármunum Bandaríkjanna.

Þá sagði Paul Ryan í áðurnefndu útvarpsviðtali að atvinnuleysisbætur væru fátækragildra. Verið væri að greiða fólki fyrir að vera ekki í vinnu og það þyrfti að laga það.
Demókratar segja Repúblikana vera að nota fjárlagahalla, sem sé að miklu leyti þeirra eigin sköpun, til þess að skera niður fjárveitingar ríkisins til heilbrigðismála og almannatrygginga. Það muni koma sérstaklega niður á fátækum.
Gæti reynst Repúblikönum dýrt
Þingmenn virðast þó óttast það að draga úr aðstoð við fólk sem nýtur hennar nú þegar af ótta við pólitískan kostnað sem gæti fylgt því. Þess í stað er talið að til standi að koma í veg fyrir að fleiri muni geta notið aðstoðar ríkisins.
Í umfjöllun New York Times kemur fram að slíkar aðgerðir séu verulega óvinsælar og milljónir manna treysti á aðstoð ríkisins. Demókratar sjái færi á því að ná fram sigrum í þingkosningum á næsta ári með því að beita þeim skilaboðum að Repúblikanar fórni almenningi á altari hinna ríku.