Átta manns hafa verið handteknir vegna morðsins á maltnesku blaðakonunni Daphne Caruana Galizia sem myrt var í október síðastliðinn.
Frá þessu greinir maltneski forsætisráðherrann Joseph Muscat. Segir Muscat að lögregla hafi staðið fyrir aðgerðum í bænum Marsa, suður af höfuðborginni Valletta, og í Bugibba og Zebbug.
Hin 53 ára Galizia var myrt þegar bílaleigubíll hennar var sprengdur í loft upp skammt frá heimili hennar. Hún hafði fjallað ítarlega um Panamaskjölin, meðal annars aflandsfélag sem tengdist Muscat.
Ríkisstjórn Möltu hefur boðið eina milljón evra fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku á morðingja Galizia. Galizia hafði farið til lögreglunnar um tveimur vikum fyrir morðið vegna morðhótana sem henni höfðu borist.
Rannsóknarblaðakonan hélt úti vinsælli heimasíðu þar sem hún skrifaði um spillingarmál stjórnmála- og embættismanna.
Átta handteknir vegna morðsins á Galizia

Tengdar fréttir

Fordæmir Möltu og kallar mafíuríki
Sonur Daphne Caruana Galizia, blaðamanns sem fjallaði ítarlega um Panamaskjölin og aflandsfélag tengt Joseph Muscat forsætisráðherra og var myrt á mánudag, fordæmdi stjórnvöld á Möltu harkalega í gær.

Ríkisstjórn Möltu býður milljón evrur fyrir upplýsingar um morðið á blaðakonunni
Ríkisstjórn Möltu mun gefa þeim sem veita upplýsingar sem leiða til handtöku á þeim sem ber ábyrgð á morðinu á maltnesku blaðakonunni Daphne Caruana Galizia milljón evrur.

Forsætisráðherra segir Galizia hafa verið sinn helsta andstæðing
Joseph Muscat heitir því þó að finna morðingja hennar.