Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid halda til Uppsala í dag á þriðja og síðasta degi opinberrar heimsóknar þeirra til Svíþjóðar. Einn af hápunktum dagsins verður þegar utanríkisráðherra mun afhenda menningarmálaráðherra Svíþjóðar gjöf frá íslensku þjóðinni.
Forsetahjónin munu fyrst heimsækja Landhúnaðarháskóla Svíþjóðar í Uppsölum þar sem meðal annars verður sagt frá rannsóknum sem tengjast íslenska hestinum. Þaðan verður farið í Ångström tilraunastofu Uppsalaháskóla þar sem sagt verður frá hinum ýmsum orkurannsóknum.
Skoða Uppsala-Eddu Snorra
Stjórnendur Uppsalaháskóla munu svo taka á móti forsetahjónunum og munu þau hlýða á erindi um norrænar fornbókmenntir. Þá munu þau Guðni og Eliza skoða Uppsala-Eddu, miðaldahandrits Snorra Sturlusonar.
Í hádeginu mun landshöfðingi Uppsalaléns bjóða til hádegisverðar í Uppsalahöll og mun Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra þar afhenda sænskum stjórnvöldum að gjöf 400 sett af nýrri sænskri þýðingu á Íslendingasögum í fimm bindum. Alice Bah Kuhnke, menningarmálaráðherra Svíþjóðar, mun veita bókunum viðtöku.
Konungshjónin munu að því loknu kveðja forsetahjónin sem halda svo heim til Íslands.

