Embla segir stóran hluta skólasystkina sinna vilja fermast borgaralega. Hún segir krakkana hafa rætt það þó nokkuð hvers vegna þau völdu að fermast borgaralega, en ekki í kirkju.
„Mig langaði ekki að sleppa því að ferma mig, en mig langaði ekki að gera það kristilega. Ég trúi ekki beinlínis á guð, ég trúi á minn eigin guð, og ég er líka svolítið fyrir pakka,“ segir Embla. Hún skoðaði hvernig borgaraleg ferming fer fram og ákvað sig að því loknu.
„Mér fannst það mjög spennandi. Fræðslan þar er eitthvað sem mér fannst geta nýst mér í framtíðinni. Hitt er bara að læra um guð og Jesú. Ég var ekki beint alin upp við að trúa á guð, en ég held að föðurfjölskyldan trúi á guð.“

Embla segir að sig gruni að hún fari að heimsækja frænda sinn í New York, en sig langi einnig að fara til Danmerkur.
„Besta vinkona mín býr þar. Mér finnst mjög gaman að vera þar. En mig hefur alltaf langað líka að prófa að fara út fyrir Evrópu og sjá hvernig það er þar. “
Í ár eru 462 börn skráð í fermingarfræðslu hjá Siðmennt. Talsverð fjölgun er frá því í fyrra, en þá fermdust 376 börn borgaralega. Fjölgunin er því 23 prósent.
Frá því að Siðmennt hóf að bjóða upp á borgaralega fermingu á Íslandi árið 1989 hafa tæplega 3.400 einstaklingar fermst þar. Talsverð fjölgun hefur verið utan höfuðborgarsvæðisins síðustu ár, sérstaklega á Norðurlandi, í Reykjanesbæ og á Selfossi.
Í fermingarfræðslu Siðmenntar er lögð áhersla á umburðarlyndi, gagnrýna hugsun, siðfræði, mannleg samskipti og ábyrgð einstaklingsins í nútímaþjóðfélagi.
„Fermingarfræðslan hófst núna á mánudaginn og stendur í ellefu vikur á höfuðborgarsvæðinu. Svo eru helgarnámskeið utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar.
Í ár verða fjórtán athafnir um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu verða sjö athafnir í Reykjavík, Kópavogi og í Garðabæ í fyrsta skipti. Á Norðurlandi verða athafnir bæði á Akureyri og Húsavík. Í fyrsta skipti verður haldin sérstök athöfn á Ísafirði. Að auki verða athafnir á Egilsstöðum, Selfossi og í Reykjanesbæ.