Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, segir að eftir að starfsmenn fyrirtækisins hafi komist á snoðir um afskipti rússneskra aðila af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016, hafi fyrirtækið beitt nýjum tólum í kosningum í Frakklandi, Þýskalandi og Alabama í fyrra sem eytt hafi tugum þúsunda falskra aðganga sem notaðir voru til að dreifa áróðri.
Hann sagði einnig að fyrr í vikunni hefðu starfsmenn fyrirtækisins eytt stóru neti rússneskra falsaðganga.
Starfsmenn rússneska fyrirtækisins Internet Research Agency, sem iðulega kallast „Tröllaverksmiðja Rússlands“ stýrðu í aðdraganda kosninganna 2016 Facebooksíðum með falsreikningum sem litu út fyrir að vera frá Bandaríkjunum. Fylgjendur þeirra voru allt að nokkur hundruð þúsund.
Sjá einnig: Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju“ í Pétursborg
Til að framfylgja nýju reglunum ætlar fyrirtækið að ráða „þúsundir“ nýrra starfsmanna og stefnt er að því að nýju reglurnar taki á heimsvísu á næstu mánuðum.
Sömuleiðis ætlar fyrirtækið að staðfesta einkenni stjórnendur stórra Facebooksíðna svo ekki verði hægt að nota falsaðganga til að stýra slíkum síðum.
„Breytingar þessar munu ekki koma í veg fyrir að fólk reyni að svindla á kerfinu. Þær munu hins vegar gera aðilum mun erfiðara að gera það sem Rússarnir gerðu í kosningunum 2016 og að nota falsaðganga og síður til að keyra auglýsingar,“ skrifaði Zuckerberg á Facebook í kvöld.