Vart er hægt að tala um raunverulegar kosningar í Egyptalandi enda var pólitískum andstæðingum al-Sisi og þeim sem hugðust gefa kost á sér í forsetakjörinu annað hvort meinað að bjóða sig fram á undarlegum forsendum eða beinlínis fangelsaðir.
Þó svo að yfirburðir al-Sisi hafi verið algjörir þá var kosningaþátttaka minni en í síðustu kosningu, eða 41 prósent. Yfirvöld í Egyptalandi lögðu mikla áherslu á að Egyptar nýttu kosningarétt sinn. Talið er að dræm kosningaþátttaka muni gera al-Sisi erfitt fyrir á komandi kjörtímabili en grunur leikur á að stjórn hans muni freista þess að hrinda af stað meiriháttar breytingum á stjórnarskrá landsins. Áhrifamenn innan ríkisstjórnarinnar hafa þrýst á slíkar breytingar, en þær taka meðal annars til endurskoðunar á lengd kjörtímabila forsetans.
Lítill áhugi og engar kappræður
Mótframbjóðandi al-Sisi var Moussa Moustafa Moussa. Hann hlaut tæplega þrjú prósent greiddra atkvæða. Þrátt fyrir að hafa boðið sig fram gegn al-Sisi, þá er Moussa stuðningsmaður forsetans. Fleiri kusu að ógilda atkvæði sín í stað þess að greiða Moussa atkvæði samkvæmt niðurstöðum kosninganefndarinnar.Aðrir stjórnarandstæðingar höfðu lýst áhuga á að bjóða sig fram. Helsti andstæðingur al-Sisi var handtekinn í janúar og kosningastjórinn hans barinn til óbóta af óþekktum árásarmönnum. Aðrir andstæðingar al-Sisi hættu við framboð vegna hótana. Engar kappræður fóru fram í aðdraganda kosninganna.
Al-Sisi sagði í egypskum fjölmiðlum í aðdraganda kosninganna að hann hefði viljað sjá fleiri gefa kost á sér og að hann hefði ekkert að gera með það að aðrir frambjóðendur hefðu hætt við framboð.
Umbrotatímar
Niðurstöður kosninganna voru formlega kynntar í gær. Það var niðurstaða kosninganefndarinnar að forsetakosningarnar hefðu verið frjálsar og sanngjarnar.Síðustu fjögur ár hafa verið mikill umbrotatími í sögu Egyptalands. Al-Sisi hefur rutt af stað miklum umbótum á efnahag landsins sem hafa komið harkalega niður á fátækustu íbúum Egyptalands.
Al-Sisi var í fararbroddi þegar egypski herinn tók öll völd í Egyptalandi árið 2013. Þá var Mohamed Mursi, fyrsta lýðræðislega kjörna forseta Egyptalands og leiðtoga Bræðralags múslima, steypt af stóli. Ári seinna var al-Sisi kjörinn forseti með 97 prósent atkvæða. Síðan þá hafa mannréttindasamtök ítrekað sakað al-Sisi og stjórn hans um að fangelsa tugþúsundir stjórnarandstæðinga.