„Frumvarpið gerir ráð fyrir að ferðaþjónusta hér á landi verði leyfisskyld en eingöngu gagnvart fyrirtækjum sem skráð eru hér á landi. Samkeppnisstaða erlendra fyrirtækja er allt önnur og miklu betri en íslenskra fyrirtækja,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
Forsvarsmenn íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja segja augljós tengsl milli samdráttar í bókunum hjá íslenskum fyrirtækjum og starfsemi erlendra fyrirtækja sem í mörgum tilvikum greiði hvorki skatta né gjöld hér á landi, stundi undirboð á vinnumarkaði og hafi hvorki leyfi né réttindi.
Halldór segir þessa starfsemi skapa augljósan aðstöðumun gagnvart íslenskum fyrirtækjum sem greiði laun samkvæmt samningum, og skatta og gjöld.
Halldór bendir á annað frumvarp sem bíði afgreiðslu þingsins um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja.
„Í því frumvarpi er lagt til að starfsmenn þessara fyrirtækja verði skilgreindir sem verandi á íslenskum vinnumarkaði, sem skiptir miklu máli því þá getum við sagt að þeir eigi, frá fyrsta degi, að njóta sömu starfskjara og hér gilda,“ segir Halldór. Eftir sem áður muni þó verða erfitt að fylgja rétti þeirra eftir á meðan vinnuveitendur þeirra eru hvorki skráðir né leyfisskyldir.

„Fyrirtækið Backroads rak á fjörur okkar eftir að bandarísk stúlka, sem er búsett hér á landi, fór á fund sem þeir boðuðu til og var auglýstur í Grapevine. Á fundinum fékk hún minnisblað með launakjörum upp á 65 evrur fyrir dagsferðir og 540 evrur fyrir 6 daga ferðir, án yfirvinnu en með góðri von um þjórfé,“ segir Halldór. 65 evrur eru 7.900 krónur.
Fyrirtækið er meðal nokkurra erlendra fyrirtækja sem nefnd eru í minnisblaði sem fylgir umsögn ASÍ til Alþingis um fyrrnefnt frumvarp um Ferðamálastofu. Þau eiga það sammerkt að vera hvorki skráð hér á landi né starfsmenn þeirra sem gjarnan eru ungir háskólanemar í ævintýraleit og fá einhverjar greiðslur en alls ekki í samræmi við íslenska kjarasamninga og þurfa að miklu leyti að reiða sig á þjórfé.
Önnur fyrirtæki í minnisblaði ASÍ eru franska fyrirtækið Iceland 66 nord sem Halldór segir nánast hafa þurrkað upp frönskumælandi hópferðamarkaðinn hér, svissneska fyrirtækið Geko Expeditions sem sérhæfir sig í „self-drive“ utanvegaakstri í Vatnajökulsþjóðgarði, en á vef fyrirtækisins má sjá myndband sem sýnir akstur á ómerktum slóðum, og að lokum spænska fyrirtækið Tierras Polares sem ræður sína starfsmenn, unga háskólanema, í gegnum Vinnumálastofnun spænska ríkisins.
„Það er ekki nóg með að leiðsögumenn þeirra séu á skítakaupi, heldur fær fyrirtækið launin niðurgreidd af spænska ríkinu,“ segir Halldór. Hann segir ASÍ alls ekki vilja leggja til að erlendum fyrirtækjum verði bannað að veita þjónustu hér á landi en þau verði hins vegar að vera jafnsett íslenskum fyrirtækjum.