Viðskipti innlent

Á­rétta að upp­sagnir geti verið liður í fram­kvæmd sam­runa

Atli Ísleifsson skrifar
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Vísir/Arnar

Samkeppniseftirlitið hefur í kjölfar frétta af uppsögnum 23 starfsmanna SAH Afurða á Blönduósi sent bréf til bæði Kaupfélags Skagfirðinga og Kjarnafæði Norðlenska þar sem minnt á að stöðva skuli aðgerðir sem tengist samruna kjötvinnslustöðva. Bent er á að uppsagnir á starfsfólki geti verið liður í framkvæmd samruna.

Greint er frá þessu á vef Samkeppniseftirlitsins í dag. Í bréfunum til KS og KN er jafnframt áréttað að til skoðunar geti komið hvort kaup KS á KN hafi samræmst gildandi lögum í ljósi nýlegs dóms héraðsdóms.

Fréttir bárust af því á mánudainnn að Kjarnafæði Norðlenska hefði sagt upp 23 af 28 starfsmönnum í hagræðingarskyni. Ákvörðun hefði verið tekin um að sauðfé yrði ekki slátrað á Blönduósi haustið 2025.

Samkeppniseftirlitið bendir á heimasíðu sinni á að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá í nóvember síðastliðinn, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að nýlegar undanþágur frá samkeppnislögum frá vorinu 2024, sem heimili kjötafurðastöðvum að sameinast og hafa tiltekið samráð sín á milli, stríði gegn stjórnskipunarlögum og hafi því ekki lagagildi.

„Vegna dómsins ritaði Samkeppniseftirlitið kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf, dags. 19. nóvember 2024, þar sem því var m.a. beint til þeirra að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið gætu gegn samkeppnislögum og stofnast hefur til á grundvelli umræddra undanþáguheimilda,“ segir á heimasíðunni.

Stöðvi aðgerðir

Fram kemur að þegar héraðsdómur hafi fallið hafi samruni Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á eignarhlutum í Kjarnafæði Norðlenska (KN) þegar átt sér stað, en starfsemi SAH afurða á Blönduósi sé í eigu síðarnefnda félagsins.

„Í tilefni af nýlegum fréttaflutningi af uppsögnum á starfsmönnum sláturhúss SAH Afurða hefur Samkeppniseftirlitið ritað KS og KN bréf, dags. 4. mars sl., þar sem minnt er á efni fyrra bréfs frá 19. nóvember sl. Sérstaklega er minnt á að eftirlitið hafi beint því til afurðastöðva að stöðva aðgerðir sem tengdust m.a. samrunum afurðastöðva.

Möguleg samkeppnislagabrot gætu komið til skoðunar

Jafnframt er í bréfinu áréttað að til skoðunar geti komið hvort kaup KS á KN hafi samræmst gildandi lögum, í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur. Af sömu ástæðum geti á síðari stigum komið til athugunar hvort ráðstafanir í rekstri félaganna feli í sér brot á samkeppnislögum eða ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. Uppsagnir á starfsfólki geta verið liður í framkvæmd samruna.“

Ennfremur segir að Hæstiréttur Íslands hefði orðið við beiðni Samkeppniseftirlitsins um áfrýjunarleyfi og hafi eftirlitið áfrýjað dómi héraðsdóms til réttarins. „Ákvörðun um frekari athuganir vegna framangreinds ráðast m.a. af niðurstöðu Hæstaréttar. Fjallað er nánar um ákvörðun um áfrýjun dómsins í frétt eftirlitsins, dags. 2. desember 2024, sem aðgengileg er hér.

Með tilkynningu þessari eru athygli kjötafurðastöðva og annarra hagsmunaaðila vakin á framangreindu,“ segir á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.


Tengdar fréttir

Hæstiréttur fer beint í búvörulagamálið

Hæstiréttur hefur samþykkt að taka fyrir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að búvörulög sem voru samþykkt á Alþingi í mars hefðu strítt gegn stjórnarskrá. Málið mun því fara beint fyrir Hæstarétt, en ekki koma við hjá áfrýjunardómstólnum Landsrétti.

Sögðu 23 starfsmönnum slátur­hússins upp

Tuttugu og þremur af tuttugu og átta starfsmönnum sláturhúss SAH afurða á Blönduósi sagt upp á föstudag. Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis Norðlenska, segir uppsagnirnar hluta af hagræðingaraðgerðum Norðlenska Kjarnafæðis. Sveitarstjóri segir uppsagnirnar mikið högg fyrir allt samfélagið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×