Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Keahótelkeðjan um nokkurra mánaða skeið haft augastað á rekstri Sandhótels, enda falli rekstur þess vel að öðrum hótelum keðjunnar. Fyrir rekur hótelkeðjan níu hótel. Þar af eru sex í Reykjavík, tvö á Akureyri og eitt við Mývatn.
Páll Sigurjónsson, forstjóri Keahótela, segir rekstrarskilyrði hótela vera allt öðruvísi í dag en þau voru fyrir ári. „Þau eru svolítið óvenjuleg og allt öðruvísi en þau voru á sama tíma fyrir ári og síðustu ár,“ segir Páll og bætir við að sérstaklega eigi þetta við um rekstur hótela á landsbyggðinni. „Við erum að horfa upp á eitt lakasta vor síðustu fimm ára eða svo,“ segir hann. Það vanti fleiri hópa sem ferðaþjónustufyrirtæki hafi verið að koma með um landið.

Í apríl var gengið frá kaupum Icelandair hótela á Hótel Öldu við Laugaveg.
Hótel Alda verður rekið áfram undir sama nafni.
Í fréttatilkynningu um kaupin var haft eftir Magneu Þ. Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandair hótela, að með kaupunum nái félagið frekari hagkvæmni í rekstri.
Keahótel eru þriðja stærsta hótelkeðjan á Íslandi, en velta félagsins var rúmlega 3,1 milljarður króna í fyrra. Stærst á hótelmarkaðnum eru hins vegar Flugleiðahótel, sem reka Icelandair hótel, Hótel Eddu og Hilton Reykjavík Nordica. Velta félagsins var um 10 milljarðar árið 2016. Íslandshótel eru næststærsta keðjan og var velta félagsins 9,9 milljarðar árið 2011 og um 11,2 milljarðar í fyrra.
Í skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna, sem kom út í síðasta mánuði, kemur fram að framlegð hagnaðar stórra fyrirtækja sé rúmlega tvisvar sinnum hærri en þeirra sem lítil eru. „Bendir það til þess að fjármögnunar- og annar kostnaður sé hærri sem hlutfall af rekstrartekjum hjá litlum fyrirtækjum en hjá þeim sem stærri eru,“ segir í skýrslunni. Þar kemur líka fram að arðsemi eigna og eiginfjár er einnig mest hjá stórum félögum og minnkar svo eftir því sem fyrirtækið er minna.
Enn eru mörg hótel starfandi sem rekin eru sjálfstætt og velta miklu lægri upphæðum en stærstu keðjurnar. Sem dæmi mætti nefna Hótel Klett, sem var með innan við 700 milljónir í tekjur árið 2016, Hótel Óðinsvé, 101 hótel og Hótel Holt. Áfram verða því tækifæri til samvinnu eða sameininga á hótelmarkaðnum.