Það mun dragast að tilkynna lokatölur í sveitarstjórnarkosningunum í Vestmannaeyjum þar sem svo mjótt er á munum. Þetta segir Jóhann Pétursson, formaður yfirkjörstjórnar í Eyjum, í samtali við Vísi.
Hann segir erfitt að segja til um það hversu langan tíma það mun taka að fara yfir atkvæðin á ný.
„Eftir að hafa farið yfir þetta í fyrstu umferð og fengið niðurstöður þá er það mjótt á munum að það þarf að fara yfir þetta aftur,“ segir Jóhann.
Ekki er þetta til að minnka spennuna í Eyjum þar sem þrír flokkar bítast um atkvæðin, Sjálfstæðisflokkurinn, Fyrir Heimaey, sem er klofningsframboð frá Sjálfstæðisflokknum, og svo Eyjalistinn.

