Skoðun

Umræðan

María Bjarnadóttir skrifar
Reglulega er kallað eftir umræðu. Einhvern veginn vill það sérstaklega verða þegar um er að ræða margslungin mál sem krefjast einhvers annars en umræðu. Kannski þurfa þau frekar rannsóknir, úttektir, skýringar, eða bara tíma. Stundum þarf sannarlega umræðu, en annars konar umræðu. Til dæmis þarf stundum vitræna umræðu, en það er bara í boði umræða á skökkum forsendum eða villandi umræða. Stundum er umræðan þannig að fólk sem á erindi í hana nennir ekki að taka þátt  því það hefur ekki áhuga á að grafast undir í samfélagsmiðla­umræðu; sem margir telja þó vettvang hinnar lýðræðislegu umræðu.

Það fjölgar í hópi þeirra sem hafa áhyggjur af áhrifum tækja og samfélagsmiðla á stöðu lýðræðisins í vestrænum ríkjum. Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sem var brautryðjandi í notkun samfélagsmiðla í kosningabaráttu, er þeirra á meðal og hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að fólk taki líka umræðu án aðkomu tækninnar. Svolítið retró kannski, en hann er meðal þeirra sem telja að umræða um erfið eða flókin mál krefjist þess að fólk sjái hvert annað til þess að skilja merkingu orða og samskipta; geti greint kaldhæðni og áttað sig á tvíræðni áður en það bregst við. Það sé erfitt þegar stafabilin eru takmörkuð.

Það tekur tíma að móta sér afstöðu. Fólk þarf að hafa svigrúm til þess að máta við sig skoðanir og stefnur án þess að vera brennimerkt þeim um aldur og ævi. Við stökkvum ekki öll fullskapað stjórnmálafólk út úr hausnum á foreldrum okkar með djúpa sannfæringu og heildarsýn á öll heimsins málefni í farteskinu. Það þarf að vera hægt að skipta um skoðun. Í stafrænum samskiptaheimi verður þetta æ erfiðara.

Það þarf jú að taka umræðuna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×