Dagur B. Eggertsson var á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur réttkjörinn Borgarstjóri Reykjavíkur með 12 atkvæðum. 11 seðlar voru auðir.
Dagur B. Eggertsson óskaði eftir því að fá að taka til máls á fundinum að atkvæðagreiðslulokinni og gerði hann kjararáð að umfjöllunarefni sínu. Hann vildi undirstrika ákvörðun borgarstjórnar á síðasta kjörtímabili að afþakka hækkanir sem kjararáð hafði ákvarðað.
„Ég mun ítreka þau fyrirmæli aftur: Það er hin formlega, rétta leið til þess að passa að þessi ákvörðun detti ekki inn aftur og ég vildi að þetta kæmi fram hér í sölum borgarstjórnar á þessum upphafsdegi um leið og ég veit að ég tala fyrir munn allra sem hér inni sitja og skora á borgarstjórn og Alþingi að gera nú þær breytingar að launaþróun ráðherra og þingmanna verði ekki kveikjan að ófriðarbáli á vinnumarkaði,“ segir Dagur.
Hann óskaði jafnframt eftir því í ræðu sinni að minnihluti, meirihluti og starfsfólk vinni saman sem ein heild að verkefninu. „Ég vona að við berum gæfu til þess að nálgast þetta verkefni eins mikið sameiginlega og við getum.“
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, var á fundinum réttkjörinn forseti borgarstjórnar til eins árs auk þess sem Pawel Bartoszek var réttkjörinn fyrsti varaforseti borgarstjóri og Guðrún Ögmundsdóttir annar varaforseti borgarstjórnar.
Dóra Björt var í dag réttkjörinn yngsti forseti borgarstjórnar í sögu Reykjavíkurborgar en þess ber að geta að hún fagnar þrítugsafmæli sínu í dag.
