Tryggja að leyfi sé fyrir hendi
Samningurinn kveður á um 64 milljóna króna fjárveitingu til embættis Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með eftirlit með heimagistingu á öllu landinu. Markmiðið er að öðlast yfirsýn yfir raunverulegt umfang heimagistingar, tryggja rétt skattskil einstaklinga og að aðilar sem stunda starfsemina afli sér rekstrarleyfis.Sjá einnig: Ráðherra segir ekki til of mikils mælst að menn spili eftir reglunum
Eins og áður sagði er gert ráð fyrir að starfsmönnum í heimagistingarvakt verði fjölgað úr þremur í ellefu og koma þeir m.a. til með að framkvæma vettvangsrannsóknir í kjölfar ábendinga frá almenningi. Þá verða í hópnum tveir lögfræðingar sem munu halda utan um stjórnsýslumeðferð og ákvarðanir um stjórnvaldssektir.

Þá fagnar Þórólfur Halldórsson sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu ákvörðun ráðherra um eflingu heimagistingarvaktar. Ljóst sé að allt of margir hafi ekki skráð heimagistingu sem þeir halda úti.
Skammtímaleiga sjöfaldast á þremur árum
Frá því að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu tók við málaflokki gististaða árið 2015 hefur umfang skammtímaleigu sjöfaldast.Hin svokallað 90 daga regla tók gildi í ársbyrjun 2017 en í henni felst að einstaklingum er heimilt að leigja út lögheimili sín og eina aðra fasteign sem er í þeirra eigu til allt að 90 daga á hverju almanaksári án þess að lúta sömu reglum um leyfi og gjöld og gilda um atvinnurekstur. Skráning fer fram með rafrænum hætti á www.heimagisting.is.