Skoðun

Sundstund

María Bjarnadóttir skrifar
Íslenska sundlaugin er á pari við finnsku saununa, tyrkneska baðið og japanska onsenið í menningarlegum skilningi. Þetta fullyrði ég án nokkurra vísindalegra heimilda eða þekkingar á menningarfræði; svo augljós eru sannindin.

Það jafnast ekkert á við sundsprett í snjókomu. Hvergi er hægt að komast nær þjóðarsálinni en í heitum potti og lífsgæðin sem felast í fjölskyldusundi eftir kvöldmat með náttfötin í töskunni verða varla mæld í peningum.

Því er ekki skrýtið að ferðamaðurinn heillist af hinni íslensku sundlaug og vilji taka þátt í partýinu. Gæti hann að því að þvo sér almennilega í sturtunni, bæði fyrir og eftir, þurrka sér áður en hann fer inn í búningsklefann og einoka ekki spegilinn við andlitssnyrtingu, getur ferðamaðurinn jafnvel fallið í hópinn; í það minnsta þar til hann fer að klæða sig. Það er jú fátt eins afhjúpandi fyrir ferðamann og tex buxur sem hægt er að renna af við hnén.

Annað sem afhjúpar ferðamann í sundi eru viðbrögð, eða öllu heldur viðbragðsleysi, þegar sundlaugin er íslenskum stjörnum prýdd. Íbúar á Íslandi eru vanir því að óháð félagslegri stöðu, efnahag eða afrekum, stöndum við saman afhjúpuð í sturtunni. Auðvitað halda allir kúlinu í návist frægra, en kurteisislegt bros eða lítið nikk er yfirleitt lekkert. Ferðamaðurinn hins vegar sápar sig við hliðina á konu án þess að vita að hún er bæði Fjallkonan sjálf og Ronja Ræningjadóttir. Stendur fyrir aftan mann í rennibrautar röðinni, en veit ekki að hann er Alþingismaður, eða jafnvel Stuðmaður.

Blessaður ferðamaðurinn.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×