Það er athyglisvert að skoða með myndrænni framsetningu hvernig lesfimi einstakra nemenda þróast. Þar kemur greinilega fram að milli mælinga í maí og september á sama ári fer allstórum hluta nemenda aftur. Myndin sem fylgir þessum pistli er er gott dæmi um slíka afturför hjá nemanda í 5. bekk.

Það má benda á fjölbreyttar leiðir hvað varðar sumarlestur og t.d. hafa lestrarbingó og læsisdagatöl verið vinsæl meðal yngri nemenda (sjá vef mms.is). Með eldri nemendur má hvetja þá til að lesa efni af vefmiðlum, t.d. umfjöllun sem snýr að áhugasviði þeirra eða fréttir af ýmsum toga. Einnig má benda á rafbækur. Skilvirkast væri ef eftir lestur ættu nemendur að segja foreldrum/forráðmönnum frá efni þess sem lesið var og skapa umræður um lesefnið. Þá má nefna að á mörgum bókasöfnum eru í gangi sérstök átök hvað varðar sumarlestur, auk þess sem boðið er upp á faglega aðstoð við val á lesefni fyrir börn á öllum aldri.
Þeim tíma sem varið er í sumarlestur er því vel varið og getur þegar til lengri tíma er litið haft mikil áhrif á námsframvindu nemenda. Komum þeim boðum til barnanna okkar að það sé gaman að lesa skemmtilegar bækur og að lestrarstundir séu góðar samverustundir.
Höfundur er talmeinafræðingur og verkefnisstjóri læsisverkefnis hjá Fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar