Eftir standa 70 prósent, eða um 30 milljarðar. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, segir að þeir verði fjármagnaðir með lánsfé á almennum markaði. Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), Haukur Hafsteinsson, segir vel koma til greina að lífeyrissjóðir skoði aðkomu að fjármögnun á leiguhúsnæði.
„Það er frekar spurning um í hvaða formi það eigi að vera. Ég sé helst fyrir mér að lífeyrissjóðir komi sem lánveitendur eða hluthafar í slíkum félögum,“ segir Haukur og bendir þá til dæmis á Bjarg, sem stofnað var af BSRB og ASÍ. Að sögn Björns stendur þó ekki til að lífeyrissjóðirnir komi með hlutafé inn í fyrsta verkefni Bjargs sem er fjármagnað með stofnframlögum. „En þetta verkefni er með tekjumörkum og er því ekki fyrir alla,“ segir hann.
Það þýðir að þeir einir geta hlotið úthlutun sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum við upphaf leigu, sem er skilgreind samkvæmt lögum um almennar íbúðir og reglugerð um almennar íbúðir. „En við höfum verið að skoða það að vera með verkefni samhliða sem er leiguíbúðir án tekjumarka. Í því verkefni fengi Bjarg ekki stofnframlög og þá kemur til greina að lífeyrissjóðirnir eða verkalýðsfélögin komi inn sem hluthafar,“ segir Björn.
Útboð á bréfum í fyrsta íbúðaleigufélaginu á markaði, Heimavöllum, fór fram í byrjun maí.
„Það er svo sem ekkert leyndarmál að það var fyrst og fremst verðlagningin í því útboði sem réð því að við ákváðum að taka ekki þátt.“Þar voru 750 milljón nýir hlutir seldir fyrir samtals rétt rúmlega 1,04 milljarða króna á útboðsgenginu 1,39 krónur á hlut. Gengi bréfanna byrjaði strax að lækka sama dag og bréfin voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni og við lokun markaða í gær var gengið 1,25.
Augljóst var eftir útboðið að lífeyrissjóðirnir höfðu lítinn áhuga á að fjárfesta í félaginu. Einhverjir kynnu að hafa útskýrt áhugaleysið með því að mikil umræða hefur verið um Almenna leigufélagið og Heimavelli frá því að þau voru stofnuð. Sú umræða hefur að miklu leyti verið neikvæð. Haukur segir þó orðsporsáhættu ekki hafa valdið áhugaleysi síns lífeyrissjóðs.
„Við metum alla þætti þegar að fjárfestingu kemur og eitt af því er orðsporsáhætta. En fyrst og fremst var það bara verðið. Þegar og þá af þeirri ástæðu ákváðum við að taka ekki þátt. Þannig að aðrir þættir komu ekki til skoðunar,“ segir Haukur. Á fundi, sem stéttarfélagið Efling stóð fyrir í fyrradag, sagði Ólafur Margeirsson hagfræðingur að lífeyrissjóðir gætu gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu leigumarkaðar hér á landi. Ef lífeyrissjóðir og önnur félög og fyrirtæki, ýmist óhagnaðardrifin eða rekin í gróðaskyni, hasli sér völl á leigumarkaði skili það sér í jákvæðri samkeppni.