Federer virtist með allt í hendi sér að loknum tveimur settum. Svisslendingurinn vann fyrsta settið 6-2 og hafði svo 7-6 sigur í öðru setti. Hörkuleikur en enginn sem átti von á því sem framundan var.
Anderson vann næstu tvö sett 7-5 og 6-4 og gerðu uppgjafir hans Federer erfitt fyrir. Federer fékk eitt tækifæri til að tryggja sér sigur í leiknum en Anderson stóðst áhlaupið og framundan var fimmta og síðasta sett.
Æsispennandi oddasett
Í fimmta setti er ekki spiluð oddalota heldur framlengt þangað til annar nær tveggja lotna forystu. Síðasta settið tók tæplega 100 mínútur og hafði Anderson sigur 13-11. Anderson hefur aðeins einu sinni áður sigrað keppinaut í efstu fimm sætum styrkleikalistans á risamóti.Federer hefur jafnan verið kallaður konungur grassins og voru áhorfendur á bandi Svisslendingsins. Það dugði ekki til en fagnaðarlætin í lokin, yfir óvæntum sigri Anderson, voru heldur dræm. Fólk var vonsvikið að sjá áttfaldan Wimbledon-meistara úr leik en hinn 36 ára gamli átti titil að verja.
Federer hefur ekki tapað á risamóti eftir að hafa komist tveimur settum yfir síðan gegn Novak Djokovic í undanúrslitum Opna bandaríska árið 2011.
'I had to keep telling myself that today was going to be my day'
— BBC Tennis (@bbctennis) July 11, 2018
Kevin Anderson on beating defending champion Roger Federer#bbctennis #wimbledon pic.twitter.com/YcZAoWCGJA
„Ég hélt áfram að segja mér að halda í trúna. Dagurinn í dag yrði minn dagur. Þú þarft að hugsa þannig gegn manni eins og Roger. Ég gaf allt í þetta og er í skýjunum að hafa komist í gegnum þetta.“
Hann var eðlilega stoltur af sjálfum sér.
Nýtur sigursins í einn dag
„Þetta var frábær frammistaða af minni hálfu. Markmiðið fyrir vikuna var að komast skrefi lengra en mér hefur tekist áður. Ég er auðvitað í skýjunum og stefni á að spila á sunnudaginn. En fyrst þarf ég að jafna mig og spila á föstudaginn,“ sagði Anderson.„Ég leyfi mér að njóta sigursins í dag. En verð að jafna mig og vonandi á ég tvo leiki eftir.“
Undanúrslitin fara fram á föstudaginn og úrslitaleikurinn á sunnudaginn. Mótið er sýnt á Eurosport en nú stendur yfir leikur Rafael Nadal og Juan Martín Del Potro.