Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu í dag en hótelið er fjárfestingarverkefni Áslaugar Magnúsdóttur, fjárfestis og stofnanda tískufyrirtækisins Moda Operandi.
Sean Parker var um tvítugt þegar hann stofnaði Napster og varð fljótt þekktur innan sem og utan tæknigeirans.
Hann varð síðan stjórnarformaður Facebook þegar það fyrirtæki hafði aðeins verið til í um fimm mánuði. Árið 2010 fjárfesti Parker síðan í Spotify fyrir um 15 milljónir dollara en hann situr í stjórn fyrirtækisins.
120 manna lúxushótel með áherslu á heilsu og vellíðan
Þó nokkuð hefur verið fjallað um þá uppbyggingu sem Áslaug hyggur á í Austur-Skaftafellssýslu en til stendur að reisa þar sjálfbært hátæknivætt framtíðarsamfélag í sátt við umhverfið fyrir milljarða króna. Verður það gert undir merkjum þróunarfélagsins ONE, að því er greint var frá í Fréttablaðinu fyrr í sumar.Lúxushótelið sem til stendur að byggja er 120 manna hótel ásamt 20 minni húsum í svipuðum stíl á lóðum í kringum hótelið. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Áslaug að á hótelinu verði lögð áhersla á heilsu og vellíðan. Þar verði mikið lagt upp úr hollum matt og þá verður hægt að fara í góðar dekurmeðferðir þar.
Jakob Frímann Magnússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þróunarfélagsins sem er með fleiri verkefni í deiglunni fyrir austan en Jakob hefur sagt að ekki sé tímabært að upplýsa um aðra áfanga verkefnisins að svo stöddu.
Hér fyrir neðan má sjá frétt Stöðvar 2 um fyrirhugaða uppbyggingu á Svínhólum.