Mörg hundruð manns í suðausturhluta Laos er saknað eftir að stífla brast þar í morgun. Þarlendir miðlar greina frá gríðarlegu magni vatns sem losnað hafi úr læðingi og er flóðið sagt hafa hrifsað til sín heilu þorpin. Áætlað hefur verið að um 5 milljarða rúmlítra af vatni hafi verið að ræða.
Nákvæmur fjöldi látinna liggur ekki fyrir á þessari stundu en rúmlega 6600 manns eru talin hafa misst heimili sín í flóðunum. Að sama skapi er ekki vitað hversu margra er saknað en yfirlýsingar stjórnvalda bera með sér að þeir séu hið minnsta á annað hundrað.
Stjórnvöld hafa sent fjölda báta á flóðasvæðin svo að flytja megi eftirlifandi íbúa í öruggt skjól. Rannsókn er hafin á því hvað varð til þess að stíflan brast.
Umhverfissinnar hafa lengi varað við virkjunaráformum í Laos sem þeir segja hafa óafturkræf áhrif á náttúru og nærliggjandi samfélög.
Gríðarlegt flóð eftir að stífla brast
Stefán Ó. Jónsson skrifar
