Skoðun

Samkeppni skortir sárlega

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Fyrir þrjátíu árum kostaði um 55 þúsund krónur að fljúga til Kaupmannahafnar og til baka. Það jafngildir um 260 þúsundum króna á verðlagi dagsins í dag. Nú er hægt að kaupa flugmiða fram og til baka frá dönsku höfuðborginni á liðlega 25 þúsund krónur. Samkeppni á flugmarkaði hefur gert það að verkum að framboð á flugferðum hefur stóraukist og flugfargjöld hríðlækkað. Það sama gildir um aðra markaði þar sem kraftar samkeppninnar hafa fengið að njóta sín.

Önnur lögmál gilda hins vegar um póstmarkaðinn þar sem ríkið hefur, enn sem fyrr, einkarétt til þess að dreifa bréfum undir 50 grömmum. Einokunin átti að tryggja sanngjarnt verð og trausta þjónustu. Fátt er fjær sanni.

Fyrir þremur áratugum var póstburðargjald á léttustu bréfunum til Evrópu um 15 krónur eða sem samsvarar um 90 krónum á núverandi verðlagi. Í dag kostar hins vegar 200 krónur að senda sams konar bréf til Evrópu. Verðið hefur meira en tvöfaldast. Og varla er hægt að halda því fram að þjónustan hafi batnað svo um munar. Flutningshraði pósts til Evrópu hefur til að mynda lítið breyst. Árið 1988 var síðasti skiladagur póstkorta sem áttu að berast til álfunnar fyrir jól 14. desember. Í fyrra þurfti að póstleggja jólakortin fyrir 15. desember.

Hluti póstmarkaðarins er vissulega frjáls en einokun ríkisins á dreifingu minnstu sendinganna skekkir samkeppnisstöðu einkafyrirtækja gagnvart ríkisrisanum og kemur í veg fyrir að neytendur geti notið raunverulegrar samkeppni.

Frjáls samkeppni hefur alls staðar sannað gildi sitt þar sem kraftar hennar hafa fengið að njóta sín. Það er engin ástæða til að ætla að önnur lögmál gildi um póstþjónustu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×