Tölvuleikjaframleiðandinn Electronic Arts, EA, hefur aflýst þremur tölvuleikjamótum eftir að byssumaður skaut tvo til bana á móti á vegum fyrirtækisins á sunnudag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá EA.
Árásin var gerð á tölvuleikjamóti í afþreyingarmiðstöðinni Jackson Landing í Jacksonville í Flórída. Keppendur á mótinu, sem helgað var fótboltatölvuleiknum Madden, freistuðu þess að öðlast þátttökurétt á stærra móti sem fram fer í október næstkomandi. Sigurvegari mótsins hreppir rúmar sautján milljónir íslenskra króna að launum.
Sjá einnig: Dómsskjöl varpa ljósi á veikindi árásarmannsins
Þrjú mót á borð við það sem haldið var í Jacksonville á sunnudag voru á dagskrá víðsvegar um Bandaríkin í september. Þeim hefur nú öllum verið aflýst, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá EA. Fyrirtækið mun nú fara ofan í saumana á öryggisgæslu á tölvuleikjamótum sínum og vinna að úrbótum.
Árásarmaðurinn, David Katz, og fórnarlömb hans tvö, Taylor Robertson og Eli Clayton, voru allir atvinnutölvuleikjaspilarar og keppendur á mótinu á sunnudag. Robertson vann sambærilegt Madden-mót í fyrra en árásarmaðurinn Katz bar sigur úr býtum á slíku móti fyrir tveimur árum.
Lögregla í Jacksonville hefur enn ekki viljað tjá sig um ástæðu að baki árásinni. Fjölmiðlar vestanhafs hafa þó haldið því fram að Katz hafi reiðst eftir að hann tapaði í leik á mótinu og hafið skothríð.
EA aflýsir tölvuleikjamótum vegna skotárásar

Tengdar fréttir

Tölvuleikjasamfélagið minnist fórnarlamba skotárásarinnar
Mennirnir tveir sem létust í skotárásinni í Jacksonville í gær voru tölvuleikjaspilarar að atvinnu.

Tala látinna staðfest og árásarmaðurinn nafngreindur
Tveir létust og ellefu særðust í skotárás í borginni Jacksonville í Flórída í gær. Árásarmaðurinn framdi sjálfsvíg að lokinni árásinni.

Dómsskjöl varpa ljósi á veikindi árásarmannsins
David Katz mun hafa skotið sérstaklega keppendur á mótinu en hann hafði einnig keppt sjálfur í Madden á undanförnum árum.