Skoðun

Umhverfisógn eyris?

María Bjarnadóttir skrifar
Rafeyrir verður til með því að láta öflugar tölvur leysa flóknar stærðfræðiþrautir á sem skemmstum tíma. Hann er ekki áþreifanlegur eins og seðlar og myntir og er aðeins til á stafrænu formi. Sumum finnst þetta skrýtið, en hérna í nútímanum er ansi margt hálffurðulegt.

Frægastur rafauranna er líklega Bitcoin, sem varð fyrst alræmdur fyrir að vera gjaldeyrir í hinum dimmu dölum internetsins og greiðslumáti fyrir vafasöm viðskipti og ólöglegar vörur. Bitcoin hefur þó notið síaukinna vinsælda og öðlast vaxandi virðingu í samfélagi fjármagnsins. Ekki er langt síðan opnaður var Bitcoin-hraðbanki á Íslandi, þó það sé bara hægt að leggja inn en ekki taka út (og því augljóslega ekki partur af Gleðibankasamsteypunni). Ensk úrvaldsdeildarlið í knattspyrnu tilkynntu nýlega um að þau hefðu gert auglýsingasamkomulag við rafeyrismiðlara sem ætlaði að greiða þeim fyrir með Bitcoin og opna á möguleika til að kaupa miða á leiki félaganna með eyrinum.

Þó að Bitcoin sé ekki peningar í hefðbundnum skilningi á eyririnn það sameiginlegt með ýmsum verðmætum að hafa veruleg áhrif á umhverfi sitt þegar grafið er eftir honum. Nýlegar áætlanir gera ráð fyrir að raforkunotkun vegna rafeyrisgraftar í heiminum verði á borð við heildarnotkun Argentínu á rafmagni. Ísland með sitt lága raforkuverð og náttúrulega kælingu fyrir öflugar tölvur er að sjálfsögðu orðið eftirsóttur staður fyrir rafeyrisgröft.

Það er þó rétt að gæta þess að rafeyrir skapast ekki úr engu. Gröfturinn skapar álag á náttúruauðlindir rétt eins og gröftur eftir kolum eða olíu – þó að áhrifin komi fram með öðrum hætti.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×