Á undanförnum þremur árum hefur kaupverð íbúða á Íslandi hækkað um 40 prósent á meðan kostnaður við viðhald og tryggingar vegna húsnæðis hefur aukist um 13 prósent samkvæmdt tölum evrópsku hagstofunnar Eurostat. Húsnæðiskostnaður þeirra sem búa í eigin húsnæði hefur því alls hækkað um 30 prósent á síðustu þremur árum.
Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs en þar segir að þessi hækkun húsnæðiskostnaðar hér á landi sé mun meiri en á hinum Norðurlöndunum. Stærsta ástæða þess séu miklar hækkanir íbúðaverðs á Íslandi og þá sérstaklega í fyrra.
Í skýrslu Íbúðalánasjóðs segir jafnframt að framboð af nýbyggingum á íbúðamarkaði hafi aukist talsvert það sem af er þessu ári.
„Á fyrstu sjö mánuðum ársins voru íbúðir í nýbyggingum, það er íbúðir með byggingarár skráð í ár eða í fyrra, samtals 18% allra íbúða sem auglýstar voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma í fyrra var sambærilegt hlutfall 11% og því hefur nýbyggingum fjölgað umfram aðrar íbúðir í sölu,” segir í tilkynningu sjóðsins vegna skýrslunnar.
Þá segir að almennt virðist sala á nýjum íbúðum ganga vel meðalsölutími nýbyggðra íbúða sé nú um tuttugu dögum styttri en fyrir ári síðan.
Nánari upplýsingar um skýrsluna má finna á vef Íbúðalánasjóðs.
