Viðskipti innlent

Play tapaði þremur og hálfum milljarði á fyrsta árs­fjórðungi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Heildartekjur Play á þessum fyrsta ársfjórðungi voru 46,4 milljónir bandaríkjadalir.
Heildartekjur Play á þessum fyrsta ársfjórðungi voru 46,4 milljónir bandaríkjadalir. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið Play tapaði 26,8 milljónum bandaríkjadala eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en það jafngildir um 3,5 milljörðum króna. Í tilkynningu frá félaginu segir að um framför sé að ræða frá sama tímabili í fyrra þegar tapið var 27,2 milljónir bandaríkjdalir.

Heildartekjur Play á þessum fyrsta ársfjórðungi voru 46,4 milljónir bandaríkjadala, eða 5,9 milljarðar króna, samanborið við 54,4 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningunni segir að sú þróun endurspegli breytingar á leiðakerfi Play þar sem dregið hafi verið úr framboði og flugáætlun breytt með árstíðabundna eftirspurn í huga.

Handbært fé Play í lok ársfjórðungsins nam 21,1 milljón bandaríkjadal, sem er aukning um 3,9 milljónir dali miðað við 17,2 milljónir dali í lok fyrsta ársfjórðungs í fyrra. Handbært fé í árslok 2024 nam 23,6 milljónum dala.

„Lausafjárstaðan er sterkari samanborið við fyrra ár, sem endurspeglar betri rekstrarhorfur. Félagið leitar ávallt leiða til að tryggja lausafjárstöðu félagsins sem best, meðal annars með hagræðingu á veltufé en ef markaðsaðstæður breytast kemur til greina að auka hlutafé í félaginu eða dótturfélagi þess,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play, að hann sé ánægður með árángurinn á þessum ársfjórðungi.

„Eins og við höfum áður greint frá hvílir meginþungi viðskiptalíkans okkar á tveimur lykilstoðum: flugi til sólarlanda og að tryggja arðbær leiguverkefni fyrir þann hluta flota okkar sem ekki nýtist í okkar framleiðslu. Ég er stoltur af því að segja að við erum að skila góðum árangri á báðum þessum sviðum,“ segir hann.

„Síðasta haust var tekin ákvörðun um að leggja meiri áherslu á sólarlandaflug frá Íslandi, og niðurstöðurnar eru þegar farnar að sjást. Við höfum aukið flug til vinsælla sólarlandaáfangastaða og framboðið heldur áfram að vaxa jafnt og þétt. Þetta er í samræmi við framtíðarsýn okkar um að byggja upp öflugt rekstrarmódel sem getur tekist á við árstíðarbundnar sveiflur, sem styður við sterka frammistöðu allt árið um kring.“

Þá bendir Einar á að páskarnir hafi verið í fyrsta ársfjórðungnum í fyrra, en í apríl á þessu ári.

„Auðvitað mun það krefjast áframhaldandi einbeitingar, vinnuframlags og aðlögunarhæfni hjá okkur öllum í Play. Breytingar eru aldrei auðveldar, en þær eru nauðsynlegar og við höfum sýnt að við höfum bæði hæfileika og staðfestu til að ná árangri. Ég er fullkomlega sannfærður um að við munum, saman, halda áfram á þessari jákvæðu braut, yfirstíga þær áskoranir sem kunna að verða á leið okkar og ná markmiðum okkar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×