Ólafur Þór Guðbjörnsson hættir sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar að loknu tímabilinu í Pepsi deild kvenna. Hann staðfesti þetta við mbl.is í gærkvöld.
„Ég hef tilkynnt forráðmönnum Stjörnunnar það að ég verði ekki áfram með liðið á næstu leiktíð," sagði Ólafur við Morgunblaðið.
Þá hætta Andrés Ellert Ólafsson og Þóra Björg Helgadóttir einnig í þjálfarateymi liðsins.
Ólafur hefur verið þjálfari Stjörnunnar frá 2014. Hann gerði Stjörnuna að Íslands- og bikarmeisturum það árið, Íslandsmeisturum 2016 og bikarmeisturum 2015.
Stjarnan vann 4-1 sigur á FH í gærkvöld og er ljóst að Garðbæingar enda í þriðja sæti deildarinnar, en ein umferð er enn óleikin.
