Íslenski boltinn

Besta spáin 2025: Skjöldurinn fer ekki neitt

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Breiðabliki Íslandsmeistaratitlinum í Bestu deild kvenna í sumar.

Sindri Sverrisson skrifar
Blikar fengu að handleika meistaraskjöldinn í fyrra og ætla sér að endurtaka leikinn í ár. vísir/Diego

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Breiðabliki Íslandsmeistaratitlinum í Bestu deild kvenna í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild kvenna með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með heillri umferð í dag og á morgun.

Íþróttadeild spáir Breiðabliki 1. sæti Bestu deildarinnar í sumar, að liðið verji þar með Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn frá því í byrjun þessarar aldar og verði Íslandsmeistari í tuttugasta sinn.

Blikar áttu algjöra draumabyrjun í fyrra, á fyrstu leiktíðinni undir stjórn Nik Chamberlain, og virðast líklegar til að byrja af sama krafti í ár.

Þær unnu fyrstu átta leiki sína í fyrra en töpuðu svo óvænt fyrir Víkingum og misstu toppsætið þegar þær töpuðu einnig gegn Val í 15. umferð.

Þetta reyndust hins vegar einu töp liðsins í Bestu deildinni á síðasta ári og Blikar urðu enn betri með innkomu Samönthu Smith og Kristínar Dísar Árnadóttur í ágúst.

Samantha Smith og Kristín Dís Árnadóttir bættu frábært Blikalið í fyrra og verða nú með frá byrjun.vísir/Diego

Jafntefli gegn Val í lokaumferðinni, eina jafnteflið á leiktiðinni, nægði því Breiðabliki til að verða Íslandsmeistari og binda enda á þriggja ára einokun Vals. Í bikarúrslitaleikum höfðu Valskonur þó betur.

Miðað við breytingar á liðunum í vetur, og betri tíma fyrir Nik til að koma sínum áherslum að, er ljóst að Breiðablik er aftur orðið liða sigurstranglegast í Bestu deildinni.

Líklegt byrjunarlið (4-4-2)

Katherine Devine

Barbára Sól Gísladóttir – Heiðdís Lillýardóttir – Elín Helena Karlsdóttir – Kristín Dís Árnadóttir

Heiða Ragney Viðarsdóttir

Samantha Smith – Andrea Rut Bjarnadóttir – Agla María Albertsdóttir

Birta Georgsdóttir – Berglind Björg Þorvaldsdóttir

Breiðablik hefur endurheimt tvo afar öfluga leikmenn því markahrókurinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir og miðvörðurinn Heiðdís Lillýardóttir komu báðar í vetur.

Valur taldi sig ekki þurfa á kröftum Berglindar að halda og verður athyglisvert að sjá hvernig þessi 72 leikja landsliðskona, sem var atvinnumaður í fimm löndum, svarar því. Berglind skoraði fjögur mörk í Bestu deildinni í fyrra, hálfu ári eftir að hafa átt sitt fyrsta barn, og Heiðdís er sömuleiðis að snúa aftur eftir að hafa eignast barn í ágúst í fyrra. Hún lék með Benfica og Basel áður en hún varð ólétt.

Agla María Albertsdóttir mun halda áfram að búa til mörk fyrir Blika í sumar.vísir/Diego

Blikar fengu bandaríska markvörðinn Katherine Devine til að fylla í skarðið fyrir Telmu Ívarsdóttur sem ákvað að reyna fyrir sér með Rangers í Skotlandi. Þar er stórt skarð að fylla og einnig með brotthvarfi fyrirliðans Ástu Eirar Árnadóttur sem og Vigdísar Lilju Kristjánsdóttur sem var markahæst í fyrra ásamt Andreu Rut með 11 mörk.

Þá munar auðvitað mikið um það að Samantha Smith verði með Blikum frá upphafi tímabilsins eftir að hún náði að koma að sautján mörkum í sjö deildarleikjum í fyrra. Svo er spurning hvernig landsliðsframherjinn Ólöf Sigríður Kristinsdóttir snýr aftur eftir krossbandsslitin í fyrra sem og Katrín Ásbjörnsdóttir sem spilaði ekkert í vetur eftir að hafa meiðst í lok móts í fyrra. Ef þær ná fyrri styrk í sumar er sóknarvopnabúr Blika nánast of gott.

Komnar:

  • Katherine Devine frá Treaty United (Írlandi)
  • Berglind Björg Þorvaldsdóttir frá Val
  • Heiðdís Lillýardóttir frá Basel (Sviss)
  • Helga Rut Einarsdóttir frá Grindavík
  • Sara Svanhildur Jóhannsdóttir frá Fram (úr láni)

Farnar:

  • Ásta Eir Árnadóttir hætt
  • Telma Ívarsdóttir til Rangers
  • Vigdís Lilja Kristjánsdóttir til Anderlecht
  • Jakobína Hjörvarsdóttir í Stjörnuna (lán)
  • Margrét Lea Gísladóttir í Stjörnuna
  • Mikaela Nótt Pétursdóttir í FHL (lán)
  • Hildur Þóra Hákonardóttir í FH

Hvað segir sérfræðingurinn?

Mist Edvardsdóttir, einn af sérfræðingunum í Bestu mörkunum sem verða á sínum stað á Stöð 2 Sport í sumar, segir Blika hljóta að ætla sér að vinna bæði deild og bikar.

„Blikar koma inn í mótið sem ríkjandi Íslandsmeistarar, nýbúnar að vinna Lengjubikarinn þar sem þær unnu alla 7 leikina sína og hefja þær því leik með mómentið með sér, í góðum takti og sjálfstraustið væntanlega í botni. Því fylgir líka að pressan er á þeim en í mínum huga er það ekki neikvætt, góð lið vilja hafa pressuna á sér.

Það eru ekki miklar breytingar á leikmannahópnum frá því í fyrra og þær hafa fengið góða leikmenn inn fyrir þær sem þær misstu. Einn sterkasti leikmaður Íslandsmótsins í fyrra, Samantha Smith, er með þeim frá byrjun núna og það verður fjör að fylgjast með því hvað hún getur gert á heilu tímabili í þessari deild eftir að hafa sett 9 mörk í 7 deildarleikjum með þeim í fyrra.

Reynslan og þekkingin, bæði hjá leikmönnum og þjálfarateymi, er svo sannarlega til staðar og hljóta þau að gera þá kröfu á sig að vinna bæði deild og bikar í ár. Breiddin hjá þeim er ágæt, klárlega nógu góð til að standa sig vel hérna heima en spurning hvort hún sé nægileg ætli þær sér langt í Evrópu,“ segir Mist.

Lykilmenn

  • Agla María Albertsdóttir, 25 ára kantmaður
  • Samantha Smith, 23 ára kantmaður
  • Heiða Ragney Viðarsdóttir, 29 ára miðjumaður

Fylgist með

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir er aðeins átján ára gömul en stimplaði sig rækilega inn með Breiðabliki í fyrra, skoraði þrjú mörk og var valin efnilegasti leikmaður deildarinnar af mótherjum sínum. Það verður spennandi að sjá hvernig þessi sókndjarfi miðjumaður úr U19-landsliðinu byggir ofan á síðasta tímabil.

Í besta/versta falli

Breiðablik ætlar sér að vinna báða titlana hér á landi og hefur alla burði til þess. Í besta falli gæti liðið svo einnig komist inn í fyrstu deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu, og gert þar góða hluti næsta vetur, eftir að keppninni var breytt með svipuðum hætti og Meistaradeild karla. Í versta falli fellur liðið úr keppni í 2. eða 3. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar og missir af báðum titlunum hér á landi en það er afar erfitt að sjá fyrir sér að liðið endi neðar en í 2. sæti Bestu deildarinnar í ár.


Tengdar fréttir






×