Skuldabréfaútboði WOW air lýkur á þriðjudaginn 18. september klukkan 14 á íslenskum tíma. Nú þegar liggur fyrir að útgáfan verður að lágmarki 50 milljónir evra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW Air. Ekki verða veitt viðtöl að svo stöddu en tilkynning verður send út í lok dags næstkomandi þriðjudag.
Sjá einnig: Skúli nálgast endamarkið
Í tilkynningunni segir jafnframt að Norska verðbréfafyrirtækið Pareto, sem hefur yfirumsjón með skuldabréfaútboðinu, hafi sent eftirfarandi upplýsingar á fjárfesta:
Wow Air - New Bond Issue - Book will close on Tuesday Sep 18th @ 16:00 CET
Tenor………………3yrs
Issue Size……………EUR50mm minimum
Coupon………………3m Euribor +9% (Euribor floor at zero) + warrants
Timing……………….. Book will close on Tuesday Sep 18th @ 16:00 CET
Greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að stjórnendur og ráðgjafar félagsins voru í gærkvöldi búnir að fá erlenda fjárfesta til að skrá sig fyrir að lágmarki um 45 milljónum evra í útboðinu. Stefnt var að því að lágmarksstærð útboðsins yrðu 50 milljónir evra, jafnvirði um 6,5 milljarðar króna. Miðað við tilkynningu WOW Air hefur flugfélagið náð markmiði sínu.
Skuldabréfafjármögnun WOW air er hugsuð sem brúarfjármögnun fram að áformuðu hlutafjárútboði. Einn af þeim möguleikum sem stjórnendur og ráðgjafar WOW air skoðuðu af alvöru í vikunni var að fá stóru viðskiptabankana þrjá til að koma að fjármögnun félagsins í tengslum við skuldabréfaútboðið. Þær hugmyndir fólust í sambankaláni, sem myndi tryggja að lágmarksstærð útboðsins yrði náð, en fljótlega varð hins vegar ljóst að ekkert yrði af þeim áformum þar sem mismikill áhugi var fyrir því hjá bönkunum að hafa aðkomu að slíkri lánveitingu.
Heimildir herma jafnframt að bandarískur fjárfestingarsjóður hafi skráð sig fyrir um 10 milljónum evra í útboðinu. Þá hafi Pareto tryggt fjármagn frá erlendum fjárfestum fyrir um 35 milljónir evra.
