Í febrúar á þessu ári úrskurðaði endurupptökunefnd að heimilt væri að taka mál fimmmenninganna upp á nýju. Mál Erlu, sem sakfelld var fyrir rangar sakargiftir, var hins vegar metið þannig að ekki þótti ástæða til endurupptöku.
Erla sagðist í þættinum stundum eiga erfitt með að átta sig á að það hafi verið hún sjálf sem upplifði atburðarás málsins og henni líði hreinlega eins og hún horfi á málið utan frá þegar það er rifjað upp.
Erla var ekki nema tvítug þegar hún var handtekin í tengslum við hvarf Guðmundar Einarssonar. Hún var seinna ákærð fyrir aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar og dæmd í þriggja ára fangelsi.
Aðspurð hvort sú stund hafi nokkurn tíma runnið upp að hún hafi einfaldlega gefið upp vonina um réttlæti, viljað snúa baki í Guðmundar- og Geirfinnsmálið og gleyma því sagði Erla að á tímabili hafi hún ekki haft nokkra von um að nokkuð kæmi út úr baráttu hennar um endurupptöku.
Víglínuna í heild sinni má sjá hér að neðan, en Erla var seinni viðmælandi þáttarins. Sá fyrri var Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarsjórnarráðherra.