Í hópnum eru fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi; Dagur B. Eggertsson (Samfylking), Ingibjörg Davíðsdóttir (Miðflokkur), Pawel Bartoszek (Viðreisn), Sigurður Helgi Pálmason (Flokkur fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsókn) og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (Sjálfstæðisflokkur).
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að verkefni hópsins sé að móta heildstæða stefnu í öryggis- og varnarmálum, en slík stefna hafi aldrei áður verið sett fram með formlegum hætti hér á landi.
„Áhersla verður lögð á að greina helstu öryggisáskoranir, skilgreina markmið Íslands í alþjóðlegu öryggissamstarfi og leggja mat á hvaða viðbúnað og getu þurfi að tryggja innanlands. Einnig verður horft til mögulegra breytinga á lagaumgjörð varnarmála,“ segir í tilkynningu.
Utanríkisráðuneytið fer fyrir vinnunni í samvinnu við dómsmálaráðuneytið og aðrar viðeigandi stofnanir. Ráðgert er að leita álits sérfræðinga og hafa víðtækt samráð innanlands og utan. Hópnum er ætlað að ljúka störfum fyrir 21. maí 2025.