
Samkvæmt sundurliðuðu yfirliti yfir innkaup borgarinnar yfir 1 milljón króna, sem blaðið hefur undir höndum, má sjá að af þessum 574 milljónum sem keypt var fyrir án útboðs, voru ríflega 102 milljónir vegna braggans umdeilda við Nauthólsveg; tæpar níu milljónir í kaup á sérfræðiþjónustu frá Securitas, verkfræðistofunni Eflu og arkitektastofunni Arkibúllunni.
Mest munar um greiðslu til verktaka og fyrirtækja vegna svokallaðra „annarra vörukaupa“ sem nema ríflega 93 milljónum. Hæstar greiðslur eru til Smiðsins þíns slf. upp á rúmlega 31 milljón og Rafrúnar ehf. upp á rúmar 23 milljónir.
Aðrar framkvæmdir sem útheimtu töluverð útgjöld hjá borginni utan útboðs á tímabilinu voru vegna breytinga á Perlunni, alls ríflega 58 milljónir. Hæsta greiðslan vegna kaupa á sérfræðiþjónustu þar er til verkfræðistofunnar Verkís hf. upp á tæpar 27 milljónir sem sér um framkvæmdirnar.