Repúblikanar töluðu sjálfir um þennan vanda á árunum sem liðu frá því Mitt Romney tapaði forsetakosningum gegn Obama 2012 og fram að sigri Donalds Trump árið 2016 að flokkurinn þyrfti að bregðast við fjölgun rómanskættaðra kjósenda. En það sem stóð einna helst upp úr á kosninganóttinni er að nú hafa Demókratar skapað sér sterka stöðu í úthverfum bandarískra borga.
Demókratar unnu fulltrúadeildarsæti í úthverfum víða um land. Ekki bara í kjördæmum sem Repúblikanar höfðu áhyggjur af og vissu trúlega að myndu tapast heldur meira að segja náði flokkurinn að sigra óvænt í erfiðari kjördæmum.

Þótt sigur Trumps hafi létt á áhyggjum Repúblikana af þróun bandarísks samfélags mega þeir ekki við því að hundsa vandann. Konur eru að fjarlægjast Repúblikana. Í umfjöllun Cook Political Report frá því í vor segir að konum sem aðhyllast Demókrata hafi fjölgað um fjögur prósentustig frá árinu 2015.
Manntalsstofnun Bandaríkjanna birti greiningu á framtíðarhorfum í vor. Þar mátti sjá að miðað við þróun undanfarinna áratuga mun hlutfall hvítra af heildaríbúafjölda minnka úr 61,3 prósentum árið 2016 í 55,8 prósent árið 2030 og svo 44,3 prósent árið 2060. Rómönskum mun á móti fjölga úr 17,8 prósentum í 21,1 prósent árið 2030 og 27,5 prósent árið 2060. Svörtum Bandaríkjamönnum, asískættuðum og öðrum mun sömuleiðis fjölga.
Þótt útgönguspár séu ófullkomnar er vert að hafa í huga að miðað við þær, og greiningu manntalsstofnunarinnar, virðist nauðsynlegt fyrir Repúblikana að aðlaga sig breyttum tímum.