
Hafnbann og lyfjaskortur
Áætlað er að 60% jemensku þjóðarinnar skorti mat eða um 17,8 milljónir einstaklinga. Ástandið í landinu hefur einnig leitt til þess að heilbrigðiskerfi landsins hefur hrunið, bæði vegna árása á spítala og heilbrigðisstarfsfólk, en einnig er skortur á lyfjum og lækningatækjum sem er afleiðing hafnbanns og lokunar flugvallarins í Sanaa, höfuðborg Jemens.Skortur á lyfjum og lækningatækjum veldur því að börn eru ekki bólusett, einnig er mikill fjöldi barna vannærður og eykst sá fjöldi enn! Þetta hefur í för með sér að útbreiðsla sjúkdóma meðal barna hefur stóraukist, oft með banvænum afleiðingum. Hreint vatn og lyf eru nú lúxusvara í Jemen sem aftur veldur því að sjúkdómar á borð við kóleru og mislinga leggjast á fleiri og fleiri Jemena. Rauði krossinn hefur gert allt sem í hans valdi stendur til að bregðast við þessu ófremdarástandi.
Lífshættulegar aðstæður
Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) og Rauði hálfmáninn í Jemen reyna eftir megni að aðstoða bágstadda við afar erfiðar og oft lífshættulegar aðstæður. Á fyrri hluta ársins 2018 veitti Rauði krossinn um 500 þúsund manns mataraðstoð, hjálpaði yfir tveimur milljónum Jemena með aðgengi að vatni og auknu hreinlæti og hjúkraði um 14 þúsund manns sem höfðu særst í átökunum.Aðgengi Rauða krossins og annarra mannúðarsamtaka að þolendum átaka og hungurs er því miður takmarkað. Sömuleiðis eru miklar hindranir á innflutningi hjálpargagna og hefur þetta gert allt hjálparstarf mjög erfitt.
Það er ljóst að mannúðarsamtök á borð við Rauða krossinn og Rauða hálfmánann geta hvorki leyst átökin né fætt jemensku þjóðina til framtíðar. Rauði krossinn og önnur mannúðarsamtök geta hins vegar veitt lífsbjargandi aðstoð til barna og fullorðinna í aðstæðum sem þessum. Við minnum á að það er á ábyrgð stríðandi fylkinga og alþjóðasamfélagsins að tryggja varanlegan frið svo íbúar Jemens geti hafið endurreisn og byggt sér og komandi kynslóðum betri framtíð.
Verðum að bregðast við
Rauði krossinn á Íslandi kallar nú eftir auknum viðbrögðum og stuðningi íslenskra stjórnvalda vegna þess ástands sem nú blasir við íbúum Jemens. Íslensk stjórnvöld hafa nú þegar vakið athygli á ástandinu í Jemen á alþjóðavettvangi – því miður aðeins eitt fárra ríkja sem það hefur gert! En betur má ef duga skal. Rauði krossinn á Íslandi skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir pólitískri lausn á átökunum samhliða því að tala fyrir öruggu aðgengi mannúðarsamtaka og hjálpargagna inn í landið. Opna þarf á ný flugvöllinn í Sanaa og tryggja að hafnbanni verði aflétt.Ástandið í Jemen er með öllu óásættanlegt. Hungursneyð og ónýtt heilbrigðiskerfi, innviðir landsins og efnahagur eru í rúst. Milljónir eru á flótta og milljónir fara svangar að sofa. Þetta ástand er bein afleiðing af síendurteknum brotum á alþjóðlegum mannúðarlögum og virðingarleysi gegn mannlegri reisn. Af þessum sökum deyr mikill fjöldi saklausra borgara á degi hverjum, sumir úr næringarskorti og hungri, aðrir úr læknanlegum sjúkdómum og enn aðrir af völdum vopnaðra átaka.
Á meðan ástandið í Jemen lagast ekki eru það mannúðarsamtök á borð við Rauða krossinn og Rauða hálfmánann sem standa vaktina. Nauðsynlegt er að safna fjármagni svo hægt sé að senda mikið magn hjálpargagna til bágstaddra í Jemen og þannig bregðast við þeirri hungursneyð sem mikill meirihluti borgara landsins stendur frammi fyrir.
Tíminn skiptir máli, því líf milljóna Jemena er í húfi.
Þú getur stutt lífsbjargandi mannúðarstarf Rauða krossins í Jemen með 2.900 kr. framlagi með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900.