Ulf Kristersson, leiðtogi sænska hægriflokksins Moderaterna, segist vilja mynda minnihlutastjórn síns flokks og Kristilegra demókrata í Svíþjóð.
Kristersson greindi frá þessu á fréttamannafundi nú klukkan níu, en sænska þingið mun greiða atkvæði um Kristersson sem næsta forsætisráðherra Svíþjóðar á miðvikudaginn. Sé litið til fyrri yfirlýsinga annarra flokksleiðtoga bendir allt til að sænska þingið muni hafna slíkri stjórn.
Afar snúin staða er á sænska þinginu eftir kosningarnar sem fram fóru 9. september síðastliðinn. Rauðgrænu flokkarnir náðu 144 þingsætum, borgaralegu flokkarnir 143 og Svíþjóðardemókratar 62.
Allt frá því að Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna og starfandi forsætisráðherra, skilaði stjórnarmyndunarumboði sínu um í lok síðasta mánaðar tilkynnti þingforsetinn Andreas Norlén að hann myndi ekki veita neinum formanni nýtt umboð til stjórnarmyndunar. Þess í stað boðaði hann leiðtoga flokkanna til hópviðræða út frá fjórum tillögum að nýrri stjórn og fóru þær viðræður fram í þarsíðustu viku. Eftir viðræðurnar greindi hann frá því að hann hugðist tilnefna Kristersson sem næsta forsætisráðherra og að þingið myndi í kjölfarið greiða atkvæði um hann.
Hafni þingið Kristersson á miðvikudaginn taka við viðræður flokksleiðtoga á ný. Takist sænska þinginu ekki að samþykkja nýjan forsætisráðherra í fjórum tilraunum skal boðað til nýrra kosninga. Atkvæðagreiðslan um Kristersson á miðvikudag er sú fyrsta í röðinni.
Kristersson vill mynda stjórn með Kristilegum demókrötum

Tengdar fréttir

Sænski þingforsetinn sér fjóra möguleika í stöðunni
Forseti sænska þingsins, Andreas Norlén, segir að hann muni ekki veita neinum umboð til stjórnarmyndunar í bili.

Sænska þingið mun greiða atkvæði um Kristersson
Sænska þingið mun greiða atkvæði um Ulf Kristersson, formann hægriflokksins Moderaterna, sem nýjan forsætisráðherra Svíþjóðar.

Pattstaða í Svíþjóð eftir að Löfven sigldi í strand
Stefan Löfven, leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins, sér ekki fram á að geta myndað ríkisstjórn en hann hafði tvær vikur til þess að kanna möguleika á slíku.