Afneitarar loftslagsvísinda halda því iðulega fram að vísindamenn séu „hrakspármenn“. Í reynd hafa loftslagsvísindamenn hins vegar í flestum tilfellum verið of varkárir í spám sínum um áhrif loftslagsbreytinga vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.
Í umfjöllun AP-fréttastofunnar kemur fram að hnattræn hlýnun hafi ekki orðið alveg eins mikil og sumar spár gerðu ráð fyrir á byrjun 10. áratugsins. Vísindamenn segja hins vegar að spár þess tíma hafi ekki komist nálægt því að segja fyrir um hversu slæmar afleiðingar loftslagsbreytinganna hafa orðið nú þegar.
Fyrir nokkrum áratugum hafi vísindamenn einblínt á hækkandi hitastig og yfirborð sjávar. Þeir hafi aftur á móti ekki séð fyrir hvernig hlýnunin myndi magna upp veðuröfgar og náttúruhamfarir eins og raun hefur borið vitni undanfarin ár.
„Ég held að ekkert okkar hafi ímyndað okkur að þetta yrði eins slæmt og það er þegar orðið,“ segir Donald Wuebbles, loftslagsvísindamaður við Illinois-háskóla sem var einn höfunda loftslagsskýrslu Bandaríkjastjórnar sem kom út í síðustu viku.
Spárnar dekkjast með betri þekkingu
Betri þekking, tækni, athuganir og gögn hafi síðan bætt skilning vísindamanna á mögulegum afleiðingum hnattrænnar hlýnunar. Sá skilningur er að áhrif loftslagsbreytinga verði enn verri í framtíðinni en fyrri spár gerðu ráð fyrir.Líkön hafa til dæmis gert vísindamönnum kleift að tengja áhrif hlýnunar við einstaka veðuratburði eins og þurrka, hitabylgjur og fellibyli sem hafa orðið þúsundum manna að aldurtila.
Stóru íshellurnar á Grænlandi og Suðurskautslandinu bráðna einnig mun hraðar en vísindamenn töldu mögulegt á síðustu öld. Hvor um sig hefur tapað milljörðum tonna af ís frá 1992. Vegna þessa hafa vísindamenn þurft að tvöfalda spár sínar um hækkun yfirborðs sjávar á þessari öld.
Undanfarnir 406 mánuðir hafa allir verið hlýrri en meðaltal 20. aldarinnar. Vísindamenn telja að haldi menn óbreyttri losun á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi, gæti hnattræn hlýnun náð 3-5°C fyrir lok aldarinnar miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu.
Slík ofsahlýnun hefði gríðarlega áhrif á veðurfar og lífsskilyrði bæði manna og annars lífríkis jarðarinn. Hún gæti jafnframt hrint af stað keðjuverkun náttúrulegra svarana sem mögnuðu upp hlýnunina jafnvel þó að menn hættu að losa gróðurhúsalofttegundir.
„Við vitum núna að við gætum í alvörunni orðið vitni að fjöldaútrýmingu sem gæti eytt allt að helmingi dýrategunda á jörðinni,“ segir Jonathan Overpeck, deildarforseti í umhverfisfræði við Michigan-háskóla.