„Þetta er okkur til minnkunar að sjálfsögðu. Menn lenda örugglega í því að hegða sér illa þegar menn taka því aðeins of alvarlega að fara út að skemmta sér,“ segir Gunnar Bragi. Ekkert þeirra sé þannig að það drekki áfengi dagsdaglega.
Heimir Már Pétursson ræddi við Gunnar Braga í morgun þegar fram voru komin vafasöm ummæli meðal annars um unga þingkonu Sjálfstæðisflokksins, Ingu Sæland formann Flokks fólksins og Oddnýju Harðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar.

„Ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir öllu sem þarna fór fram.“
Hann segir listann langan yfir fólk sem hann þurfi að biðja afsökunar. Hann telur þetta þó ekki munu hafa neinar afleiðingar innan Miðflokksins.
„Nei. Við sitjum í þessari súpu nokkuð mörg. Við þurfum að læra af þessu og gera upp við þetta fólk sem þarna er rætt um,“ segir Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi segir þó ljóst að hann geri engan greinarmun á kynjunum. Hann fari ófögrum orðum um Loga Einarsson og Friðrik Ómar.
„Það sitja allir í rauninni undir sama ruglinu í manni.“
Oddný Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Inga Sæland lásu upp yfirlýsingu í tilefni af orðum Gunnars Braga og félaga í morgun.
„Ég held það sé engin ástæða til að einhver af þessum þingmönnum segi af sér þingmennsku eða eitthvað slíkt. Það hefur enginn brotið af sér,“ segir Gunnar Bragi. Fólk eigi samt ekki að tala svona.
Svo þurfi að ræða það hvort eðlilegt sé að taka upp samtöl fólks úti í bæ.
Fréttamaður benti Gunnari Braga á að hann væri opinber persóna og orðin hefðu verið látin falla á opnum vettvangi
„Jú, en við eigum líka okkar líf.“
Þegar þingmanninum var bent á að þingmenn í öðrum löndum hafi margir hverjir sagt af sér þingmennsku við minna tilefni og hvort íslensku þingmennirnir sex ættu ekki að gera það, var svar Gunnars Braga afdráttarlaust.
„Engan veginn.“

„Ég vona að enginn hætti við að mæta út af þessum orðum okkar,“ segir Gunnar Bragi.
Fréttamaður spurði Gunnar Braga hvort hann ætlaði að drekka appelsínusafa á Bessastöðum í kvöld.
„Ætli það ekki.“
Viðtalið í heild við Gunnar Braga má sjá hér að neðan.