Skoðun

Markaðssettur spuni

Bjarni Már Júlíusson skrifar
Á vinnumarkaði er gott orðspor mikilvæg auðlind og við starfslok er orðspor um vel unnin störf ómetanlegt. Ég tel mig hafa áunnið mér gott orðspor í störfum hjá stærstu orkufyrirtækjum landsins undanfarin 28 ár. Atburðarás í kjölfar fyrirvaralausrar uppsagnar minnar úr starfi framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, þar sem mér var ekki gefinn kostur á að standa fyrir máli mínu, hefur hins vegar skaðað orðspor mitt. Óvíst er hvort hægt verður að vinda ofan af ásökunum í minn garð, sem dreift hefur verið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Ummæli slitin úr samhengi

Það var ömurleg reynsla fyrir mig, fjölskyldu mína og nána vini að fylgjast með hvernig vegið var að mannorði mínu með vandlega útfærðum spuna, sem dreift var á rétta staði til að ná sem mestri fylgni við einhliða og óstaðfesta frásögn af ástæðum uppsagnar tiltekins starfsmanns hjá ON. Ólíkt uppsögn minni var þessi uppsögn ekki skyndiákvörðun í kjölfar skrifa á samfélagsmiðlum, heldur byggði hún á faglegu mati. Niðurstaða í úttekt Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar er að uppsögn starfsmannsins telst réttmæt. Til að breiða yfir raunverulega ástæðu uppsagnarinnar, var búin til frásögn á samfélagsmiðlum, þar sem ummæli og atburðir voru slitin úr samhengi eða uppskálduð.

Ég viðurkenni fúslega að ég tala yfirleitt hreint út um það sem mér býr í brjósti og mætti eflaust stundum orða hlutina á nærgætnari hátt. Upplifun fólks af aðstæðum er misjöfn og það sem einum finnst í lagi að segja í samskiptum á vinnustað, getur annar tekið illa upp. Talsmáti og samskipti sem áður þóttu í lagi á karllægum vinnustöðum teljast ekki boðleg í dag. Þetta þurfa ég og aðrir karlar að læra að tileinka okkur á nýjum tímum og það hef ég leitast við að gera.

Ógagnrýnið samspil samfélagsmiðla og fjölmiðla

Rannsókn Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar sýnir að tal um kynferðislega áreitni af minni hálfu á ekki við rök að styðjast og þau sem ég vann nánast með bera mér ekki illa söguna. Það er mér léttir að samkvæmt úttektinni upplifði enginn starfsmaður að henni eða honum hafi staðið ógn af framkomu minni.

Í ljósi atburðarásar, sem í þessu tilfelli kom fyrirmyndar stórfyrirtæki í uppnám, tel ég að fyrirtæki þurfi að bæta óhróðri á samfélagsmiðlum inn í áhættustjórnun sína. Viðbrögð við öðrum hættum eru kortlögð og æfð og má sem dæmi nefna viðbrögð við eldi sem kom upp í Hellisheiðarvirkjun í janúar síðastliðnum en þar tókst að koma í veg fyrir stórtjón vegna þess að hættan var fyrirséð og búið að æfa viðbrögð við henni. Ég tel ólíklegt að íslensk fyrirtæki eða stofnanir hafi yfirleitt gert viðbragðsáætlanir til að undirbúa viðbrögð við árás á orðspor þeirra eða starfsmanna þeirra frá aðilum sem telja sig eiga harma að hefna. Í gagnrýnislitlu samspili samfélagmiðla og fjölmiðla er auðvelt að dreifa sögum sem þykja líklegar til að ná athygli lesenda, án þess að haft sé fyrir því að kanna sannleiksgildi þeirra. Því tel ég fulla ástæðu til að huga að þessari hættu.

Að lokum vil ég þakka þeim fjölmörgu fyrrverandi samstarfsmönnum sem hafa sent mér skilaboð og lýst jákvæðri upplifun af samskiptum við mig í leik og starfi. Einnig vil ég þakka Brynhildi Davíðsdóttur, stjórnarformanni Orkuveitunnar, fyrir að taka faglega á málinu og láta framkvæma þá úttekt sem nú eru komnar niðurstöður úr. Ég ber fullt traust til þeirra sem unnu að úttektinni og vona að með niðurstöðum hennar linni atlögum að mannorði mínu og óhróðri um minn fyrrverandi vinnustað.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×