Fundi forsætisnefndar Alþingis sem hófst klukkan 11.30 í dag lauk klukkan 13 í dag en þá hófust fundir þingflokka. Fyrir forsætisnefnd lá að fara yfir Klaustursmálið en á meðal þeirra sem eiga sæti í nefndinni er Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Hún er ein þeirra sem þingmennirnir sex ræddu um á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn og sagði við Jóhann K. Jóhannsson, fréttamann, að loknum fundi að hún væri ánægð með samstöðuna innan nefndarinnar.
Inga vildi hins vegar ekki tjá sig um það sem þar fór fram eða hvort einhver niðurstaða var á fundi nefndarinnar vegna málsins og sagði þingforseta myndu gera það við upphaf þingfundar klukkan 15.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, sagði í samtali við fréttastofu að hann ætlaði ekki að láta neitt uppi um fund forsætisnefndar fyrr en við upphaf þingfundar.
Stóra spurningin er hvort að forsætisnefnd kalli siðanefnd þingsins saman vegna Klaustursmálsins en þó nokkur fjöldi þingmanna hefur kallað eftir því að slíkt verði gert.
