Ívar Ísak Guðjónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir að öryggisgæsla í gær á landsleiknum hafi heilt yfir gengið vel. Í seinni hálfleik mátti heyra barið á hurðar hússins svo vallarstarfsmenn ákváðu að spila tónlist á meðan leikurinn var spilaður.
„Það var þarna í seinni hálfleik þá komu mótmælendur á hurðar þarna, neyðarútganga og spörkuðu í þær eða lömdu í þær í einhvern tíma. Þannig húsið var ekki allt afgirt í gær, nei,“ segir Ívar Ísak.
Tekið verði mið af því við öryggisgæslu dagsins en Ívar segist ekki ætla að svara því hvort íþróttahúsið verði að fullu afgirt í dag vegna atburða gærkvöldsins.
„Ég ætla ekki að fara nánar út í það. Við skoðum framkvæmdina, hvernig þetta fór í gær og við munum meta það í dag til hvaða ráðstafana við munum grípa til í dag.“