Vinnueftirlitið stöðvaði í síðustu viku vinnu hjá fyrirtækinu Fylki ehf. að Vesturbergi í Reykjavík þar sem veigamikil atriði varðandi aðbúnað starfsmanna og öryggisatriði voru í ólagi.
Í ákvörðun Vinnueftirlitsins kemur fram að verkstaður hafi verið skoðaður og öryggismál rædd við stjórnanda verksins. Merki voru um að starfsmenn sofi og hafist við á verkstaðnum. Þá var fallvörnum á verkpöllum við húsið ábótavant en handrið og fallvarnir á verkpalla vantaði á öllum stöðum. Þá voru opin göt í gólfplötu í húsinu þar sem fallhætta var fyrir hendi.
Þá voru kranastjórnendur með erlend kranaréttindi, að eigin sögn, á verkstað en engin gögn þess efnis voru þó tiltæk. Öll slík réttindi þurfa að hljóta samþykki Vinnueftirlitsins áður en kranastjórnendur byrja að stjórna krönum á Íslandi.
Vinna var því bönnuð á öllu vinnusvæðinu þar sem lífi og heilbrigði starfsmanna var talin hætta búin. Ákvörðun vinnueftirlitsins má nálgast hér.

