Nassar, sem var læknir Michigan State-háskólaliðsins og bandaríska landsliðsins, var fyrr á árinu dæmdur í ríflega 300 ára fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega á að minnsta kosti 265 stúlkum yfir margra ára skeið.
„Þrátt fyrir að Nassar beri að sjálfsögðu ábyrgð á þessu áratuga langa ofbeldi gegn þessum stúlkum og konum þá framdi hann ekki ódæðisverkin í lokuðu umhverfi. Þvert á móti starfaði hann í umhverfi sem auðveldaði honum að fremja glæpina,“ segir í skýrslunni. BBC greinir frá.
Skýrslan var gerð af sjálfstæðum rannsóknaraðilum en hún er 233 síðna löng. Í henni eru viðtöl við ríflega 100 manns og farið er yfir meira en 1,3 milljónir skjala.

„Þessar stofnanir og einstaklingar hunsuðu viðvarnir og tóku ekki eftir augljósum aðferðum Nassar til að ala stelpurnar upp í ofbeldinu. Í allra verstu tilfellunum hlustuðu þessar stofnanir og ákveðnir einstaklingar ekki á stúlkurnar þegar að þær báðu um hjálp, varnarlausar gagnvart kynferðislegu ofbeldi Larry Nassar,“ segir enn fremur í skýrslunni.
Fram kemur í skýrslunni að Scott Blackmun, fyrrverandi yfirmaður bandarísku Ólympíunefndarinnar, og Alan Ashley, afreksstjóri nefndarinnar, hafi verið látnir vita af ásökunum í garð Nassar árið 2015 en þeir létu enga aðra vita.
Bandaríska Ólympíunefndin hefur sett af stað mikið ferli hjá sér til að koma í veg fyrir að slíkir hlutir gerist afturr, en Blackmun hætti vegna heilsufarsástæðna í febrúar á þessu ári en Ashley var rekinn um leið og skýrslan var birt.