Kanadíski fyrrverandi diplómatinn Michael Kovrig hefur verið handtekinn í Kína. Hugveitan International Crisis Group greindi frá málinu í gær og sagðist beita sér fyrir því að Kovrig yrði leystur úr haldi. Ekki hefur verið upplýst um ástæðu handtökunnar. Kovrig hefur meðal annars unnið sem erindreki í Peking og Hong Kong. Þá hefur hann starfað frá því í febrúar í fyrra sem sérfræðingur fyrir International Crisis Group.
Reuters greindi sömuleiðis frá málinu og hafði eftir heimildum. Yfirvöld í Kína vildu ekki svara fyrirspurnum miðilsins um málið.
Setja má handtöku Kovrigs í samhengi við nýja deilu Kína og Kanada. Sú spratt upp eftir að Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei og dóttir stofnanda kínverska tæknirisans, var handtekin í Kanada í síðustu viku. Henni er gefið að sök að hafa logið að bönkum um ítök Huawei á írönskum markaði og þannig sett bankana í hættu á að brjóta gegn viðskiptaþvingunum. Bandaríkin fóru fram á handtökuna og vilja að Meng sé framseld.
Yfirvöld í Kína kölluðu svo sendiherra bæði Bandaríkjanna og Kanada á teppið til að ræða um málið. Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum sagði að von væri á frekari aðgerðum vegna handtöku Meng.
Einnig má setja málið í samhengi við það þegar kanadískt par var handtekið í Kína árið 2014. Þá höfðu Kanadamenn nýlega sakað Kínverja um að ráðast á tölvukerfi sitt.
Kína handtekur kanadískan diplómata

Tengdar fréttir

Kínverjar segja réttarhöld yfir Huawei-stýru sýndarmennsku
Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei og dóttir stofnanda kínverska tæknifyrirtækisins, mætti fyrir dóm í Vancouver í Kanada í gær og á sunnudag.

Kanada sver af sér tengsl við handtökuna
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir að ríkisstjórn hans hafi ekki komið nálægt handtökunni á Meng Wanzhou, fjármálastjóra kínverska tæknifyrirtækisins Huawei. Meng var handtekinn á flugvellinum í Vancouver á laugardag.

Fjármálastjóri Huawei handtekinn í Kanada
Fjármálastjóri kínverska fjarskiptafyrirtækisins Huawei var handtekinn í Kanada á dögunum.