Tveir til viðbótar hafa fundist látnir í flaki farþegalestarinnar sem lenti á tengivagni flutningalestar á Stórabeltisbrúnni í Danmörku í gærmorgun. Frá þessu er greint á vef danska ríkisútvarpsins en þar segir að lögreglan útiloki það nú að fleiri finnist látnir í flakinu.
Fimm konur og þrír karlar létust í slysinu. Engin börn eru á meðal hinna látnu en alls slösuðust sextán manns. Nokkrir þeirra eru enn á sjúkrahúsi að sögn lögreglu sem vill ekki tjá sig nánar um líðan þeirra.
Að sögn lögreglunnar hefur henni „nánast“ tekist að bera kennsl á fjögur hinna látnu en eftir á að bera kennsl á fjóra. Flestir þeirra sem létust voru í fremsta vagni farþegalestarinnar.
Talið er að farþegalestin hafi lent á tómum tengivagni sem var ofan á flutningalest sem flytur bjór. Tengivagninn virðist hafa fokið af lestinni.
Bo Haaning hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa í Danmörku segir ekki hægt að fullyrða að svo stöddu hvort að tengivagninn hafi þá lent á farþegalestinni eða hvort farþegalestin hafi keyrt á tengivagninn.
Alls voru 131 farþegi um borð í lestinni og þrír starfsmenn.
Átta látnir í lestarslysinu í Danmörku

Tengdar fréttir

Tómur tengivagn talinn orsök lestarslyssins
Svo virðist sem að tengivagn fyrir flutningabíl hafi fokið af flutningalestinni og rekist á farþegalestina á Stórabeltisbrúnni í morgun.

Danska þjóðin harmi slegin eftir mannskætt lestarslys
Sex eru látnir og sextán slasaðir eftir alvarlegt lestarslys á Stórabeltisbrúnni í Danmörku í gær. Líklegt að stormviðri hafi valdið slysinu þegar farþegalest og flutningalest full af bjór mættust á brúnni á áttunda tímanum í gærmorgun. Danadrottning vottar aðstandendum samúð sín. Íslensk kona um borð slapp ómeidd.