Þetta voru tillögur sem fulltrúar Vegagerðarinnar báru upp á fundi umhverfis-og samgöngunefndar Alþingis um umferðaröryggi á Hringbraut en gatan heyrir undir Vegagerðina.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stýrði fundinum en í samtali við fréttastofu sagði hún að fundurinn hefði verið afar góður og upplýsandi en hún leggur áherslu á gott samstarf allra þeirra sem eiga hlut að máli.
„Vonandi verður samstarfið gott á milli Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar og lögreglunnar þannig að allir leggist á eitt í þeim efnum að það sé ekki verið að vísa hver á annan heldur að allir vinni að því að stuðla að meira öryggi vegfarenda.“
Umferðaröryggi við Hringbraut komst í hámæli eftir að keyrt var á 13 ára stúlku þann 9. janúar síðastliðinn. Íbúar í Vesturbænum hafa látið í ljós áhyggjur sínar í kjölfar slyssins og krefjast úrbóta.

Keyri yfir á rauðu þrátt fyrir gangbrautarvörslu
Foreldrar í hverfinu ákváðu að eigin frumkvæði að fylgja börnum sem verða að fara yfir Hringbrautina til að komast til skóla. Foreldrarnir hafa skipt með sér vöktum.Rósa Björk segist hafa verið í sambandi við umrædda foreldra sem hafi sagt henni að þeir hafi orðið varir við að ökumenn fari yfir á rauðu ljósi þrátt fyrir að foreldri í gulu öryggisvesti sé til staðar til að fylgja börnunum.
Á morgun er á dagskrá fundur skóla-og frístundaráðs Reykjavíkurborgar en gangbrautarvarsla verður á meðal þess sem rætt verður um á morgun.
„Ég og við í nefndinni höfum komið mjög vel til skila áherslum okkar að það þurfi að vinna með öllum ráðum að því að bæta og auka umferðaröryggi gangandi vegfarenda,“ segir Rósa Björk.