Tekjur fyrirtækisins jukust um 30 prósent á milli ára og voru 16,9 milljarðar dala. Greinendur höfðu gert ráð fyrir 16,4 milljarða dala tekjum.
Eftir að uppgjörið var birt í gærkvöldi hækkaði virði hlutabréfa félagsins verulega. Sérfræðingar sem fjölmiðlar ytra hafa rætt við segja þessar tölur einhver þær jákvæðustu sem sést hafa í nokkur ár.
Sé litið til alls ársins í fyrra voru tekjur Facebook 55,8 milljarðar dala. Hagnaðurinn var 22,1 milljarður dala. Árið 2017 voru tekjurnar 40,7 milljarðar og hagnaðurinn 15,9 milljarðar.
Á tveimur árum hafa tekjur Facebook í fjórða fjórðungi næstum því tvöfaldast, eins og sjá má á súluritinu hér að neðan. Eins og áður er langstærsti hluti tekna fyrirtækisins vegna auglýsinga. Reuters segir verð auglýsinga á Facebook hafa lækkað en á móti eru fleiri auglýsingar sýndar á miðlum fyrirtækisins og þá sérstaklega á Instagram.

Þá fjölgaði notendum í öllum heimshlutum og þar á meðal Evrópu og Norður-Ameríku. Fyrri uppgjör höfðu sýnt fram á dregið hafði verulega úr fjölgun notanda í Norður-Ameríku og hafði þeim jafnvel fækkað í Evrópu. Um mikinn viðsnúning er því að ræða, sem þykir merkilegt með tilliti til þess að ímynd fyrirtækisins hafi beðið hnekki á árinu vegna gagnaleka, misnotkunar persónuupplýsinga og annarra hneyksla.
Í smáu letri við glæru af fjölgun daglegra notenda segir að fölskum aðgöngum að Facebook hafi fjölgað um 27 prósent og hafi verið 116 milljónir. Þá hafi tilvikum þar sem persónur eru með tvo aðganga fjölgað um 12,4 prósent og hafi verið 255 milljónir.

Hér má hlusta á Zuckerberg og Sandberg ræða við fjárfesta og skoða glærur sem fylgdu ársfjórðungsuppgjörinu.
Bæði Zuckerberg og Sandberg lýstu vandamálum Facebook sem samfélagslegum vandamálum sem finna megi víða um internetið. Þá sagði Zuckerberg að grundvallarbreytingar hefðu verið gerðar á rekstri fyrirtækisins og því væru forsvarsmenn þess betur í stakk búinn til að takast á við vandamál framtíðarinnar.