Viðskipti innlent

Allri stjórn Lands­virkjunar skipt út

Árni Sæberg skrifar
Brynja Baldursdóttir er nýr formaður stjórnar Landsvirkjunar.
Brynja Baldursdóttir er nýr formaður stjórnar Landsvirkjunar. Vísir/Vilhelm

Ný stjórn Landsvirkjunar var kjörin á aðalfundi Landsvirkjunar í dag, samkvæmt tillögu fjármála- og efnahagsráðherra. Brynja Baldursdóttir er nýr stjórnarformaður.

Í fréttatilkynningi frá Landsvirkjun segir að aðalfundur Landsvirkjunar hafi samþykkt tillögu stjórnar um 25 milljarða króna arðgreiðslu í ríkissjóð. Samanlagður arður vegna rekstraráranna 2021 til 2024 nemi um 90 milljörðum króna.

Glæný stjórn

Fjármála- og efnahagsráðherra hafi gert tillögu um aðalmenn og varamenn í stjórn Landsvirkjunar, í samræmi við reglur um val á einstaklingum til stjórnarsetu í ríkisfyrirtækjum. Nýr formaður stjórnar sé Brynja Baldursdóttir. Aðrir stjórnarmenn séu Berglind Ásgeirsdóttir, Sigurður Magnús Garðarsson, Hörður Þórhallsson og Þórdís Ingadóttir.

Varamenn í stjórn Landsvirkjunar séu Agni Ásgeirsson, Björn Ingimarsson, Elva Rakel Jónsdóttir, Eggert Benedikt Guðmundsson og Stefanía Nindel.

„Landsvirkjun þakkar fráfarandi stjórnarfólki góð störf í þágu orkufyrirtækis þjóðarinnar.“

Í fráfarandi stjórn voru Jón Björn Hákonarson, formaður, Gunnar Tryggvason, varaformaður, Álfheiður Ingadóttir, Halldór Karl Högnason og Soffía Björk Guðmundsdóttir.

Allt saman staðfest

Aðalfundurinn hafi staðfest skýrslu fráfarandi stjórnar og reikning fyrir liðið reikningsár, auk þess að samþykkja tillögu stjórnar um arðgreiðslu til eigenda. Arðgreiðslur Landsvirkjunar séu ákveðnar á grundvelli arðgreiðslustefnu fyrirtækisins.

Deloitte ehf. hafi verið kosið endurskoðunarfyrirtæki Landsvirkjunar. Auður Þórisdóttir, endurskoðandi, hafi verið kjörin utanaðkomandi nefndarmaður í endurskoðunarnefnd fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×