Ingimar Jónsson forstjóri Pennans ræðir breytingarnar í Morgunblaðinu í dag. Í Austurstræti hafa leikföng verið færð úr kjallara og upp á fjórðu hæð þar sem kaffihús er að finna. Ritföng á millihæð eru komin í kjallarann en þar verður gjafavöru að finna. Árstíðabundin vara verður áberandi á fyrstu hæð.
Kaffihúsinu í versluninni á Skólavörðustíg hefur verið lokað vegna erfiðs rekstrar. Á Akureyri hefur verið gerður samningur við Kaffi Lyst um að reka kaffihúsið. Verslun á Laugavegi 77 verður lokað á næstu vikum þar sem leigusamningur er runninn út.
Þá verður lítilli verslun í nýja miðbænum á Selfossi lokað en ný 350 fermetra verslun við Larsenstræti opnuð í staðinn. Þá er verslun í Vík í Mýrdal í farvatninu og stefnt á opnun síðla árs eða í upphafi árs 2026.